Þetta mundi án efa stuðla að því að koma sjónarmiðum alþýðunnar af krafti á framfæri og fá hennar rödd inn á Alþingi og í aðrar valdastofnanir.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Í kreppunni upp úr 1930 höfðu menn vilja og þrek til að gefa út Verkalýðsblaðið þrátt fyrir mikla fátækt og atvinnuleysi. Ég rakst á þetta blað frá 1931 á skoðunarferð minni um Árbæjarsafn í gær. Núna er verkalýðshreyfingin svo rík að það eru allar peningakistur fullar en samt rekur hún engan fjölmiðil fyrir hinar vinnandi stéttir. Í ASÍ eru núna um 125 þúsund félagsmenn. Utan ASÍ eru líka mörg stéttarfélög. Launafólk borgar allt upp í 1% af tekjum sínum í stéttarfélagsgjöld. Hvers vegna í ósköpunum er ekki rekinn öflugur fjölmiðil í ýmsu formi til að berjast fyrir málstað hinna vinnandi stétta? Hvaða metnaðarleysi er þetta! Það þarf svo sannarlega að berjast fyrir hag launafólks með pennann, röddina, myndavélina og með listrænni hönnun af ýmsum toga.
Þetta mundi án efa stuðla að því að koma sjónarmiðum alþýðunnar af krafti á framfæri og fá hennar rödd inn á Alþingi og í aðrar valdastofnanir.
Og hvaða stjórn var það svo mitt í kreppunni sem lagði fram á Alþingi lög um almannatryggingar. Það var stjórn hinna vinnandi stétta, eins og hún var kölluð. Vinstri stjórn. „Með fyrstu verkum ríkisstjórnar hinna vinnandi stétta sem tók við stjórnartaumum árið 1934 var að skipa nefnd til þess að semja frumvörp til laga um almannatryggingar og um framfærsluskyldu. Var nefndinni ætlað að afla víðtækra upplýsinga um stöðu mála á þessu sviði. Nefndin lagði síðan fram tvö frumvörp sem vörðuðu áðurgreinda þætti og skiptu bæði höfuðmáli fyrir alþýðufólk.“ (Saga ASÍ) Þessi frumvörp voru síðan samþykkt á Alþingi.