Tómarúmið er vettvangur stjórnmálanna
Gunnar Smári skrifar:
Til að skilja stjórnmál vorra tíma þarf fólk að átta sig á stóru tómarúmi sem elítu- og klíkuvæðing stofnanaflokkanna hefur skilið eftir. Vinstriflokkarnir, sem eiga rætur sínar í verkalýðshreyfingu og sósíalisma, voru teknir yfir af elítu menntafólks upp úr miðri síðustu öld og hættu að endurspegla kröfur hinna verr settu; voru ekki lengur stjórnmál lífsháskans (lífsbarátta hinna verr settu er barátta upp á líf og dauða) og urðu stjórnmál lífsstílsins, lífsviðhorfa. Þessa þróun kallar Thomas Piketty bramítavæðingu vinstrisins, stétt og samfélag sérfræðinga, hafin yfir almúgann, tók að sér að móta samfélagið á meðan verkalýðurinn og hin verr settu færðust frá því að vera drifmótor samfélagsbreytinga og mótandi afl krafna um hærri laun, meiri réttindi, ókeypis heilbrigðisþjónustu, öruggt húsnæði, ókeypis menntun fyrir alla, eftirlaun, daglega hvíld, meiri völd á vinnustað o.s.frv. yfir í að vera viðfang sérfræðinganna, sem töldu sig vita betur um hvað væri verkalýðnum fyrir bestu. Hér heima sjáum við hvert þessi þróun leiðir í Samfylkingunni og VG, hvort tveggja flokkum með rætur í verkalýðshreyfingunni en sem hafa hoggið á þær rætur, bæði með nafnabreytingum og rofi gagnvart sögu og uppruna og með tengslarofi við verkalýðinn og hreyfingu hans, hreyfingu sem áður var samviska og hugmyndasmiðja þessara flokka, hjarta og æðakerfi.
Samskonar elítu- og klíkuvæðing hefur átt sér stað innan hægri stofnanaflokka á nýfrjálshyggjuárunum. Forystan hefur sveigt stefnuna að hagsmunum stórfyrirtækja, efnafólks og fjármagnseigenda og yfirgefið eigendur lítilla fjölskyldufyrirtækja, einyrkja, iðnaðarmenn, sjómenn og hluta verkalýðsstéttarinnar, sem fundu samleið með breiðari hægri flokkum, um og upp úr miðri síðustu öld. Stefna flokkanna tók áður mið af þörfum þessara hópa en er í dag ekkert nema hörð hagsmunagæsla fyrir hina allra ríkustu. Sjálfstæðisflokkurinn er einkar skýrt dæmi um þessa þróun; Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktsson eldri og Bjarna Benediktssonar yngri eru gerólíkir flokkar, breytingin hefur kallað á uppreisn eldra fólks innan flokksins sem kallar eftir því sem þau kallar gamli góði Sjálfstæðisflokkurinn, sem í minningu þessa fólks var eitthvað mildara og breiðara en blind og beitt hagsmunagæsla fyrir 0,1% ríkasta fólkið.
Stofnanaflokkarnir hafa þannig yfirgefið kjósendur sína, bæði vinstri- og hægri stofnanaflokkar. Ef við gerum ráð fyrir að stofnanaflokkarnir þjóni vel stjórnendum og sérfræðingum og sérmenntuðu starfsfólki að hálfu, þá spanna þeir ágætlega hugmyndir um 1/3 hluta kjósenda. En restin af sérmenntaða fólkinu, iðnaðarmenn, sjómenn, bændur, afgreiðslufólk, verkafólk, öryrkjar, eftirlaunafólk og fleiri hópar upplifa erindi þessara flokka sem eitthvað sem komi sér lítið við; að flokkarnir tali ekki til sín um þau mál sem skiptir þau mestu á þann hátt sem þau skilja. Ykkur kann að finnast ég meta þetta holrúm milli stofnanaflokkanna of stórt, það má vera; en það er klárt að þetta er ekki glufa heldur risagjá sem er ráðandi fyrirbrigði í stjórnmálum Vesturlanda í dag.
Við sjáum áhrif þessa í bresku kosningunum fyrr í mánuðinum, þegar Íhaldsflokknum (með aðstoð Brexit-flokksins) tókst að sækja inn í þetta tómarúm á meðan Verkamannaflokknum tókst það alls ekki. Það undralega gerðist að í kjölfar róttæknivæðingar flokksins færðist hann fjær iðnaðarsvæðunum í norðri og lengra inn í hjarta borganna; náði ekki að halda þessum ólíku menningarheimum saman. Hér heima sjáum við hverja upprisu Miðflokksins og Sigmundar Davíðs á fætur annarri, eftir nýja og enn nýja skandala. Ástæðan er ekki sú að almenningur sé kátur með skandala Sigmundar heldur sú að hann gerir út á tómarúmið milli elítu- og klíkuflokkanna og þar er fólk sem kýs fremur spillt stjórnmálafólk sem ávarpar sig en óspillt stjórnmálafólk sem talar yfir fólk utan klíkunnar. Þetta var líka raunin með Donald Trump. Kjósendur í tómarúminu kusu frekar bullukoll en þekktan lygara, sem þeir vissu að hafði svikið hagsmuni sína fyrr og myndi gera það áfram.
Ástæða þess að ég vil benda ykkur á þetta tómarúm kjósenda sem elítuflokkarnir hafa skilið eftir, yfirgefið, er að ég vil segja eftirfarandi: Það er varasamt að ætla það vilja almennings sem þeir lukkuriddarar sem gera út á þetta tómarúm halda á lofti. Tómarúmið einkennist af óþroskuðum stjórnmálum, enda hefur enginn flokkur eða hreyfing reynt að byggja sig upp innan þess, þar vaða bara um snákasölumenn sem eru að selja sjálfan sig, ekki stjórnmálafólk sem er að vinna með almenningi. Okkar hlutverk er að byggja upp stjórnmála- og hagsmunabaráttu innan þessa tómarúms, byggja upp orðfæri og áherslur upp af kröfum fólksins og allt ekki að reyna að aðlaga kröfur þess að orðfæri og áherslum elítu- og klíkustjórnmálanna. Þetta má orða öðruvísi: Það er ekkert að fólkinu í tímarúminu annað en vanræksla stjórnmálanna.