Börnin eru afgangsstærðir á heimilunum
Guðmundur Oddsson, margreyndur skólastjóri, skrifar grein í Mogga dagsins. Þar fjallar um hann um PISA könnunina en sendir einnig foreldrum barna væna sneið:
„Þá eru afskipti foreldra af skólastarfinu orðin svo mikil að engu tali tekur. Það er engu líkara en margir foreldrar telji sig hafa meira vit á skólastarfinu en kennararnir. Fyrir mér er það álíka líklegt og að farþegar í flugvél færu fram í flugstjórnarklefa til að segja flugstjóranum hvernig hann ætti að fljúga vélinni.
Foreldrar verða að gefa sér tíma til að ala börnin sín upp og kenna þeim almenna mannasiði. Mér finnst sem börnin séu alltof oft afgangsstærðir á heimilunum. Vinnan og lífsgæðakapphlaupið eru sett ofar öllu öðru. Skólarnir spilla ekki börnunum og það er með öllu óþolandi að kenna þeim um ef nemendur villast af réttri leið. Þar verða foreldrar að líta sér nær og gefa sér meiri tíma við uppeldið. Það er nefnilega alltof auðvelt að kenna stöðugt einhverjum öðrum um ef illa fer. Mín ráðlegging til foreldra er því mjög einföld: Sjáið um að krökkunum líði vel og látið þau finna að ykkur þyki vænt um þau og hættið að hlaupa upp til handa og fóta þó eitthvað komi upp á í skólanum. Það er bara eðlilegt og hefur gerst í áranna rás.“