- Advertisement -

Það þroskar stjórnmálafólk að þjóna kjósendum en skemmir þá ekki

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Til að halda ákvörðunum innan hins lýðræðislega vettvangs þarf sá vettvangur að ráða við hlutverk sitt, annars missir hann stefnumótandi vald sitt til embættismanna annars vegar og auðvaldsins hins vegar (stundum kallað markaðurinn, en markaðurinn er vettvangur þar sem hver króna hefur eitt atkvæði og þar sem hin ríku ráða því öllu, á meðan lýðræðisvettvangur er svæði þar sem hver maður hefur eitt atkvæði). Til að styrkja lýðræðislegan vettvang þarf að auka veg borgarstjórnar, láta hana funda oftar en annan hvorn þriðjudag yfir veturinn. Of mikið af stefnumótun og ákvörðunum fer fram innan ráða borgarinnar, sem eru lokaður vettvangur falinn almenningi og sem hefur þróast þannig að formaðurinn vinnur náið með viðkomandi sviðstjóra og verður oft frekar eins og samstarfs- og/eða aðstoðarmaður hans en formaður hins pólitíska vettvangs. Borgarstjórn ræður ekki við sjálfstæða vinnu, þar er öllu vísað til meðferðar innan kerfisins, og er því valdalítil málstofa. Ef staðan á Alþingi væri sambærileg myndi formaður velferðarnefndar undirbúa fundi og móta dagskrá í samstarfi við ráðuneytisstjóra Félagsmálaráðuneytisins. Það liði ekki langur tími áður en nefndin yrði eins og stjórn framkvæmdasviðs fremur en hluti löggjafans og á endanum myndu þarfir framkvæmdavaldsins móta öll störf og umfjöllunarefni löggjafans. Eins og það væri á fyrirferð framkvæmdavaldsins bætandi. Þannig er það í borginni, hið lýðræðislega vald, sem sinna á stefnumótun og aðhaldi, er of veikt og sinnir ekki sínu.

En hversu margir eiga borgarfulltrúar að vera? Það hef ég ekki hugmynd um. Best færi á að fjölmennt höfuðborgarþing sæi um stefnumótun fyrir svæðið í heild en síðan væru smærri íbúaþing til að þróa stefnuna á smærri svæðum og til að draga úr miðstýringu og einhæfni í lausnum og úrvinnslu. Bæjarfélögin kringum Reykjavík gætu þá haldið sínum íbúaþingum, myndu færa heildaryfirsýn í húsnæðis-, mennta-, velferðar-, samgöngu- orkumálum o.fl. upp í höfuðborgarþing en gætu unnið misjafnlega úr þeirri stefnu í sínum hverfum. Í dag hafa sveitarfélögin fært ýmiss mál í samlög eða samstarfsfyrirtæki (samgöngur, orka o.fl.) en með þessu er pólitísk ábyrgð í raun lögð niður, bæjarfulltrúar yppta öxlum og þykjast ekkert hafa lengur að gera með strætó, það sé stjórn strætó sem beri ábyrgðina; stjórn sem kjósendur hafa svo óbeina aðkomu að þeir geta engin áhrif haft á hana.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Reykjavík mætti skipta gróft séð upp í Grafarvog (plús Árbæ, Grafarholt og Úlfarsárdal), Breiðholt (plús Norðlingaholt), Vesturborgin vestan Kringlumýrarbrautar og eystri hverfin austan hennar.

Reykjavík mætti skipta gróft séð upp í Grafarvog (plús Árbæ, Grafarholt og Úlfarsárdal), Breiðholt (plús Norðlingaholt), Vesturborgin vestan Kringlumýrarbrautar og eystri hverfin austan hennar. Þessir borgarhlutar eru á stærð við Kópavog og Hafnarfjörð. Þrátt fyrir að Reykjavík sé ekki stórborg má samt merkja að ráðhúsið er mun lengra frá íbúunum þar en t.d. ráðhúsið í Garðabæ eða Hafnarfirði er frá sínum íbúum. Undir þessum bæjarþingum mættu síðan vera hverfisráð, eða öfugt: Að bæjarþingin séu samsett út fulltrúum sem fólk kýs í sínu hverfi. Það er mikilvægasta leiðin til að viðhalda lýðræði er að hafa ákvörðunarvald eins nærri almenningi sem kostur er. Það er kostir einmenningskjördæma, þegar tiltekið svæði kýs sinn fulltrúa og allir vita hver hann er (ef ég má benda á þetta gegn kór þeirra sem hafa fussað yfir einmenningskjördæmum í kjölfar kosninganna í Bretlandi). Þegar einmenningskjördæmi eru lögð niður og tekin upp kjördæmi með mörgum fulltrúum (þróun sem tók frá seinni hluta nítjándu aldar fram til 1959 á Íslandi) missir fólk tengsl við sína fulltrúa, ég upplifi t.d. ekki að nokkur þingmaður sé þingmaðurinn minn. Sanna Magdalena er borgarfulltrúinn minn, en það er vegna þess að við erum í sama flokki. En þótt hugmyndabaráttan sé mikilvæg þá er hún ekki eina hlið stjórnmálanna, það er mikilvægt að fólk tengi við sína fulltrúa hugmyndalega en líka í gegnum búsetu og svæði (og einnig samfélagshópa, kyn og margt fleira). Það þroskar stjórnmálafólk að þjóna kjósendum en skemmir þá ekki.

Eins og kom fram í ræðum í borgarstjórn er lýðræðislegur vettvangur borgarinnar svipaður í dag og var fyrir 111 árum, eini munurinn er að fulltrúum hefur verið fjölgað úr 15 í 23 og þeir settir á full laun. Málstofan til að ræða þróun borgarinnar er enn sú sama, fundur annan hvern þriðjudag. Að öðru leyti er borginni stjórnað innan úr framkvæmdasviðinu. Þetta skýrir ástandið í borgarmálum, sem einkennast af óþroskaðri pólitíski umræðu, aðhaldsleysi með framkvæmdahliðinni og áhrifum braskara og hagsmunaaðila að stefnumótun.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: