- Advertisement -

Er þetta ekki spilling? Samherji flaggaði ófullgerðum milliríkjasamningi

Þeir eru með þennan samning í höndum tveimur mánuðum áður en hann var síðan undirritaður formlega af Gunnari Braga Sveinssyni, þáverandi sjávarútvegsráðherra, fyrir hönd Íslands í júlí 2016.

Gunnar Bragi Sveinsson var utanríkisráðherra þegar Samherji fékk ógerðan milliríkjasamning.
Ljósmynd; ruv.is

„Öll erum við hugsi yfir því ástandi sem við erum að ganga í gegnum núna hvað varðar hið svokallaða Samherjamál. Ég hef t.d. verið að skoða Wikileaks-skjölin í málinu. Þar rakst ég m.a. á tölvupóstssamskipti milli einhvers konar umboðsmanns eða útgerðaraðila í samstarfi við Samherja í Póllandi við yfirmenn Samherja, þar með talið lögfræðing fyrirtækisins. Þessi tölvupóstssamskipti áttu sér stað í maí 2016. Þar kemur fram að Samherji hefur undir höndum drög að viljayfirlýsingu eða samningi um að efla viðskiptasamband Íslands og Póllands á sviði fiskveiða, fiskeldis og líftækni. Af hverju er Samherji með í sínum höndum drög að slíkum milliríkjasamningi í sjávarútvegi milli Íslands og Póllands þar sem fyrirtækið er þungt inni með útgerðarrekstur og sölu sjávarafurða? Þeir eru með þennan samning í höndum tveimur mánuðum áður en hann var síðan undirritaður formlega af Gunnari Braga Sveinssyni, þáverandi sjávarútvegsráðherra, fyrir hönd Íslands í júlí 2016.“

Það var Inga Sæland sem benti á þetta í Alþingi í morgun.

Inga Sæland spurði forsætisráðherra merkilegra spurninga í Alþingi fyrr í dag:
Hvernig stendur á því að Samherji, sennilegast eitt íslenskra fyrirtækja, var með þetta skjal í höndunum meðan það var í vinnslu í ráðuneytinu eða tíðkast það bara í íslenskri stjórnsýslu að innherjar í atvinnulífinu hafi aðgang að skjölum sem eru í vinnslu, kannski ekki bara milliríkjasamningum heldur líka reglugerðum og lögum?

Inga hélt áfram: „Telur hæstvirtur forsætisráðherra að þetta sé ekki mjög alvarlegt? Hér eru íslensk stjórnvöld að gera milliríkjasamning og hann er í vinnslu í ráðuneytinu og Samherji eru með pappírana undir höndum og veit hvað er í undirbúningi. Er þetta ekki spilling? Hvernig stendur á því að Samherji, sennilegast eitt íslenskra fyrirtækja, var með þetta skjal í höndunum meðan það var í vinnslu í ráðuneytinu eða tíðkast það bara í íslenskri stjórnsýslu að innherjar í atvinnulífinu hafi aðgang að skjölum sem eru í vinnslu, kannski ekki bara milliríkjasamningum heldur líka reglugerðum og lögum?“

Áður en Katrínu gafst ráðrúm til að svara sagði Inga:

„Hitt er svo annað að ég fæ ekki betur séð en að Samherji hafi á þessum tíma verið að nota þessi drög að samstarfssamningi í sjávarútvegi milli Íslands og Póllands til að reyna að koma á hliðstæðum samningi milli Namibíu og Póllands varðandi fiskirannsóknir. Tilgangurinn með því hafi verið að skapa trúverðugleika og rétta ímynd kringum veiðar á umtalsverðum aflaheimildum sem Pólland hafði í lögsögu Namibíu og Samherji hefur augljóslega tekið þátt í og jafnvel séð um. Þar benda Wikileaks-skjölin á að menn hafi höndlað með greiðslur á milljónum Bandaríkjadollara. Hefur forsætisráðherra skoðað þessi skjöl? Hafa íslensk stjórnvöld yfir höfuð litið á þau? Þetta er opið allri heimsbyggðinni. Það þarf ekki nema eina tölvu til að sjá.“

Katrín Jakobsdóttir svaraði, eða ekki: „Mér er augljóslega ekki kunnugt um af hverju Samherji var með í sinni vörslu drög að slíkum samningi sem reyndar er alvanalegt að gera milli ríkja. Ég þekki nægjanlega mikið til slíks verklags að ég veit að við undirbúning slíkra samninga eru þeir oft kynntir heildarsamtökum á sviði atvinnugreina. En nákvæmlega hvernig þetta vill til þekki ég augljóslega ekki, enda var ég ekki starfandi sjávarútvegsráðherra þá. Mér er til efs að sá starfandi sjávarútvegsráðherra sem hv. þingmaður nefndi hafi nokkrar skýringar á því heldur.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:
Ég treysti þeim til að rannsaka þessi mál ofan í kjölinn.

Forsætisráðherra bætti við: „Hins vegar er það svo, af því að hv. þingmaður gerir því skóna að ég eigi að standa í sjálfstæðri rannsókn á þessu máli, að þetta mál er í ferli. Þetta mál er í ferli hjá héraðssaksóknara sem er að rannsaka þau mál sem hafa komið upp, m.a. vegna ítarlegra fréttaskýringa Kveiks og Al Jazeera um meintar mútugreiðslur Samherja til stjórnvalda í Namibíu. Auðvitað er þetta mál í því ferli sem það á að vera hjá héraðssaksóknara og hjá skattrannsóknarstjóra og ég treysti þessum stofnunum til að sinna því hlutverki sem þeim er skylt að sinna. Ég treysti þeim til að rannsaka þessi mál ofan í kjölinn. Það hefur margítrekað komið fram í mínu máli en augljóslega, herra forseti, hef ég ekki þekkingu á því nákvæmlega af hverju Samherji hafði undir höndum drög að þeim samningi sem gerður var árið 2016.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: