- Advertisement -

Vigdís vill að Félagsbústaðir leigi en eigi ekki íbúðir

Félagsbústaðir gera Reykjavíkurborg kleift að bjóða þeim sem þurfa mest, langtímaleiguhúsnæði með um 30 – 40 % lægri leigu en gengur og gerist á almennum markaði.

„Fulltrúa Miðflokksins er umhugað að leigjendur hjá Félagsbústöðum fái bestu mögulegu þjónustu og vísar því á bug aðdróttunum fulltrúa Samfylkingarinnar um annað. Skýrt kemur fram í bókun fulltrúa Miðflokksins að skoða eigi þá leið að leigja húsnæði til endurútleigu, þar sem slíkt fyrirkomulag gæti komið betur út, en það sem nú er notast við,“ bókaði Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi.

„Raunar má ætla að slíkt fyrirkomulag hljóti að koma betur út miðað við vægast sagt slæma forsögu núverandi fyrirkomulags. Fulltrúi Miðflokksins vill benda á þær fjárhagslegu skelfingar sem Félagsbústaðir hentu sér í vegna viðhaldsverkefni á eign sinni við Írabakka 2-16, en þær framkvæmdir fóru eins og kunnugt nær hálfum milljarði yfir áætlun. Því á spurningin, hvort betra væri að selja eignir Félagsbústaða og leigja framvegis húsnæði og framleigja til skjólstæðinga, fullan rétt á sér. Fulltrúa Miðflokksins er umhugað um að leigjendur hjá Félagsbústöðum fái bestu mögulegu þjónustu. Í því ljósi er spurningin sett fram,“ bókaði hún.

Meirihlutinn sagði hins vegar: „Félagsbústaðir gera Reykjavíkurborg kleift að bjóða þeim sem þurfa mest, langtímaleiguhúsnæði með um 30 – 40 % lægri leigu en gengur og gerist á almennum markaði. Ekki er ljóst hvort Miðflokkur sér fyrir sér að segja upp leigusamningum við leigjendur Félagsbústaða eða hækka leigu þeirra en hvorugur kosturinn hugnast meirihluta borgarráðs sem hefur lagt áherslu á að fjölga íbúðum og halda leigu í lágmarki. Það er ekkert óbærilegt við það að fjárfesta í félagslegu leiguhúsnæði. Þvert á móti er það hlutverk sem við tökum alvarlega og vonir okkar standa til þess að fleiri sveitarfélög gefa í hvað varðar framboð á félagslegu leiguhúsnæði.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: