- Advertisement -

„Morgunblaðið er orðið að Þjóðviljanum gamla“

Marinó G. Njálsson skrifaði á Facebook:

Marinó G. Njálsson.

„Að minnsta kosti fimm sem skrifuðu undir yfirlýsinguna misstu störf sín í dag.“

Þetta er tekið úr frétt um uppsagnir á Morgunblaðinu. Yfirlýsingin sem um ræðir, er frá starfsmönnum Morgunblaðsins, sem mótmæltu því að gengið hafi verið í störf vefblaðamanna blaðsins í stuttum verkföllum á síðustu vikum. Greinilegt er að eigendum Morgunblaðsins líkar ekki að fólk vilji verja rétt sinn. Verður að segjast eins og er, að það er sérlega áhugavert, að þeir sem vilja að Morgunblaðið fari eftir leikreglum vinnumarkaðarins og mótmæla brotum á þeim reglum, þeir verða ekki langlífir í starfi á blaðinu.

Uppsagnirnar á Morgunblaðinu eru ekki vegna kjaradeilunnar núna. Fyrirtæki, sem er búið að tapa yfir 2 milljörðum á nokkrum árum, þarf að endurhugsa rekstur sinn. Kjaradeilan er hins vegar notuð sem yfirskyn.

Morgunblaðið er á margan hátt mjög gott blað, en það rekur alveg stórfurðulega ritstjórnarstefnu og er orðið vettvangur fyrir afturhaldsöfl og hatursorðræðu. Þó margir, þar á meðal ég, hefðu gjarnan viljað lesa blaðið, þá er það erfitt, þegar innan um vandaðar greinar og fréttaflutning eru skrif, sem ekki eru siðuðu samfélagi bjóðandi. Við búum ekki í falsfréttasamfélagi Sovétríkjanna sálugu, þar sem ritstjórar og blaðamenn bjuggu til fréttir sem voru ákveðnum hópum þóknanlegar. Morgunblaðið er svo sem ekkert eitt um að leita í smiðju Pravda og annarra austur-evrópskra áróðursfjölmiðla kaldastríðsáranna. Raunar þarf ég ekkert að leita út fyrir landsteinana, því svona höguðu mörg íslensk dagblöð sér fyrir ekki nema 25 árum eða svo.

Vandi Morgunblaðsins er að það fjarlægðist lesendahóp sinn. Það sem meira er, að það hóf að ráðast í ýmsum skrifum á hluta af sínum fyrri lesendum. Hver nennir að kaupaáskrift hjá blaði, sem ræðst gegn heilbrigðum lífsgildum eða á von á að fá yfir sig saur og eimyrju? Í staðinn fyrir að stór hópur þjóðarinnar væri að leita til blaðsins eftir áreiðanlegum fréttaflutningi, þá þarf hann að leita annað. Jú, vissulega er margt mjög vel unnið, en maður veit samt aldrei hvað er áreiðanlegur fréttaflutningur og hvaða fréttum hefur verið ritstýrt til að koma að röngum upplýsingum eða skoðunum ritstjóra. Dapurleg staðreynd, en Morgunblaðið er orðið að Þjóðviljanum gamla.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: