- Advertisement -

Siðrof og siðleysi í bæjarstjórn Grindavíkur

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Vilhjálmur Birgisson.

Ég bara velti því fyrir mér hvaða siðrof og siðleysi hefur átt sér stað hjá bæjarstjórn Grindavíkur með því að voga sér að hækka laun sín frá 18% til 30% á einu bretti og um leið ógna lífskjarasamningum gróflega með þessu ótrúlega framferði sínu.

Að hugsa sér að lífskjarasamningurinn sem byggðist á því að segja prósentuhækkunum stríð á hendur og semja þess í stað með alfarið með krónutöluhækkunum og skapa þannig grundvöll til að nota svigrúmið mest handa tekjulægstu hópunum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Lífskjarasamningurinn hefur nú þegar skilað þessu markmiði sem og því að verðbólgan hefur farið hratt lækkandi og nemur einungis 2,7% og þessu til viðbótar hefur lífskjarasamningurinn stutt við að stýrivextirnir hafa lækkað um 1,5% frá undirritun og hafa ekki verið lægri um margra ára skeið.

Nei, bæjarstjórn Grindavíkur sem saman stendur af fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar gefur skítt í íslenska verkalýðshreyfingu sem lagði gríðarlega mikið á sig til að ná þessum árangri með undirritun lífskjarasamningsins.

Nei, kjörnir fulltrúar Grindavíkur ætla ekkert að taka einhverjar krónutöluhækkanir heldur vilja þeir fá „leiðréttingu“ á launum sínum og það sem nemur frá 18 til 30% , en með þessu framferði eru fulltrúar þessara flokka nánast að sturta lífskjarasamningum niður í holræsið.

Láta lágtekjufólk skapa grundvöll með lífskjarasamningum til lækkunar verðbólgu og lækkun vaxta og njóta ávinnings af því eins og aðrir landsmenn en eru alls ekki tilbúnir til að taka sömu launabreytingum og þar var um samið!

Að hugsa sér að á sama tíma og þessar launahækkanir eru afgreiddar eins og ekkert sé eðlilegra eru tekjulægstu starfsmenn Grindavíkur og reyndar allra sveitarfélaga búnir að vera samningslausir í 250 daga. Hvaða siðrof og siðleysi er þarna í gangi?

Eitt víst að þessi afgreiðsla fulltrúa Sjálfstæðismanna, framsóknarmanna og Samfylkingar í Grindavík mun ekki gera neitt annað en að stéttarfélögin verða að vígbúast og sækja sömu launabreytingar til handa starfsmönnum sveitarfélaganna vítt og breitt um landið og þessir aðilar afgreiddu til handa sér.

Hafi þessir aðilar skömm fyrir!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: