- Advertisement -

Þegar Sigurður Ingi fór í fýlu

Sjálfstæðisflokkurinn vildi að skýrt yrði kveðið á um að veiðiheimildirnar yrðu eign útgerðarinnar.

Vorið 2015 voru mikil átök í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Sigurður Ingi Jóhannsson, þá sjávarútvegsráðherra, vann frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Hann lagði það fram í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn eða réttara sagt Bjarni Benediktsson, brást illa við. Hann beitti neitunarvaldi og fullbúið frumvarp Sigurðar Inga fékk engan framgang.

Miðjan birti frétt um átökin 1. maí 2015. Fréttin hefst svona:

„Framsóknarflokkurinn þarf að lúta í gras, aftur og nýbúinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur betur í átökunum sem eru milli flokkanna. Framsóknarflokkurinn, með varaformanninn í öndvegi, varð að beygja af leið og afleggja annars tilbúið lagafrumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Sjálfstæðisflokkurinn beitti neitunarvaldið og sá til þess að frumvarpið var ekki lagt fyrir Alþingi.

En hvers vegna? Jú, vegna þess að Framsóknarflokkurinn gat ekki sæst á veigamikla kröfu Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn vildi að skýrt yrði kveðið á um að veiðiheimildirnar yrðu eign útgerðarinnar. Þetta varð til þess að Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra fór í fýlu, sagði frumvarpið ekki verða lagt fram á þessu þingi og ekki heldur á því næsta. Sigur Sjálfstæðisflokksins, sem vildi halda lögunum óbreyttum, varð algjör.“

Eftir að Sigurður Ingi varð forsætisráðherra spurði ég hann hvort hann myndi nota breytta stöðu til að þoka málinu áfram. Hann neitaði því.

Meira úr fréttinni frá vorinu 2015:

„Smábátasjómenn vilja skerf af veiðiheimildum í makríl. Það á vel við stefnu Framsóknarflokksins sem vill að veiðiheimildir verði einnig notaðar til félagslegra úrræða. Það vill Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Þá varð úr að skella á aukaveiðigjöldum í makríl, veiðigjöldum sem aðeins þeir stærstu og ríkustu geta borgað.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: