Þorsteinn í Samherja og Guðmundur í Brimi hetjur í sjávarútvegi
„Íslendingar glíma nú við áhrif eiturlyfsins Aflamark sem hefur þau áhrif að eyða samviskunni og gera atlögu að sálinni,“ segir í grein sem Sveinbjörn Jónsson sjómaður skrifar og birt er í Mogganum í dag. Hann fjallar þar um sjávarútveg og íslenskar hetjur fyrr og nú.
Í síðari hluta greinarinnar segir:
„Við Íslendingar eigum margar hetjur í fortíð og nútíð og sjálfsagt er ég ekki einn um að dást að Agli Skallagrímssyni og Gunnari á Hlíðarenda. Eins og allir vita voru þessir menn fjöldamorðingjar en það dregur ekki úr aðdáun minni heldur vorkenni ég þeim líka vegna þess að ég veit að þeir voru mótaðir af samtíð sinni, hefðum og átrúnaði. Ég geri mér einnig grein fyrir að ef þeir hefðu ekki drepið fjölda manna hefðum við líklega ekki vitað af tilveru þeirra.
Á Íslandi síðustu aldar voru hinar sönnu hetjur fiskverkafólk og sjómenn og einnig mætti finna einhverja stjórnmálamenn, vísindamenn og framkvæmdamenn sem verðskulduðu titilinn hetja vegna rösklegrar framgöngu.
Ég hef fylgst með sjávarútvegi frá blautu barnsbeini og jafnframt stundum reynt að hafa af honum framfærslu með misjöfnum árangri. Í dag eru stærstu hetjur okkar í sjávarútvegi að mínu mati Þorsteinn Már Baldvinsson og Guðmundur Kristjánsson sem lifðu báðir af hrunið og hafa verið iðnir við að safna að sér fyrirtækjum og kaupa aflamark. Þegar ég heyri nafnið Þorsteinn Már Samherji hefur það svipuð áhrif á mig og að heyra nafnið Gunnar á Hlíðarenda og þegar ég heyri nafnið Guðmundur Kristjánsson í Brimi hefur það svipuð áhrif á mig og að heyra Egill Skallagrímsson á Borg. Þeir eru allir hetjur í mínum huga hvort sem verk þeirra standast skoðun eður ei. En ég vorkenni þeim jafnframt öllum mjög mikið því ég veit að þeir eru mótaðir af samtíð sinni og siðum og háðir metnaði sínum og átrúnaði.
Eitt stórmenni mannkynssögunnar lét hafa eftir sér að trúin væri ópíum fólksins. Íslendingar glíma nú við áhrif eiturlyfsins Aflamark sem hefur þau áhrif að eyða samviskunni og gera atlögu að sálinni.
Getið þið séð fyrir ykkur hvernig staða Samherja og Brims væri ef stjórnendur þeirra hefðu verið með samviskubit yfir fólki og þorpum sem á vegi þeirra urðu? Ef svo hefði verið væru nöfn flaggskipa íslenskrar útgerðar önnur í dag.“