„Stjórnkerfið sjálft á undir högg að sækja og á mestan þátt í því sjálft. Það er að verða lýðum ljóst að inngróið embættismannakerfi reynir með ýmsum hætti að sölsa undir sig vald sem á skv. stjórnskipan landsins að vera í höndum kjörinna fulltrúa. Nú hefur Miðflokkurinn sett þetta sérstaka vandamál á dagskrá þjóðfélagsumræðna og þá má búast við að aðrir flokkar fylgi fljótt í kjölfarið af þeirri einföldu ástæðu að ella sitja þeir eftir með sárt ennið í næstu kosningum.“
Þetta er úr vikulegri grein Styrmis Gunnarssonar í Mogganum í dag. Ljóst er að Sigmundur Davíð og félagar tala beint inn í huga eldri sjálfstæðismanna.
Styrmir fjallar nokkuð um hversu traust til stjórnsýslunnar hefur tapast. Hann horfir til Miðflokksins sem fyrirmynd í endurheimtu traustsins.
Styrmir rifjar upp: „Til viðbótar kemur svo að sá vaxandi ójöfnuður, sem einkenndi samfélag okkar á síðustu árum 20. aldarinnar og fram að hruni, hvarf ekki í þeim ósköpum og er að ná sér á strik á ný. Hann er fyrst og fremst mannanna verk.“
Skot hans á pólitíska andstæðinga sína í dag, þrjátíu árum eftir að forverar þeirra tóku afleidda ákvörðun, og bendir á afleiðingar þess sem þá var gert:
„Fyrstu milljarðamæringarnir á Íslandi urðu til þegar framsal veiðiheimilda var gefið frjálst en það gleymist gjarnan hverjir þar voru að verki. Þar var á ferð vinstristjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og leifanna af Borgaraflokknum árið 1990. Talsmenn Samfylkingarinnar tala mikið um þann ójöfnuð en þeir nefna aldrei á nafn hverjir það voru sem áttu mestan þátt í að festa hann í sessi.“