„Ég er búin að fá nóg af þessum síendurteknu uppákomum þar sem við venjulegir Íslendingar horfum ofan í ógeðslegan pott spillingar sem við eigum enga sök á. Það er eitthvað mikið að í okkar samfélagi. Kvótakerfið olli siðrofi: Frjálst framsal aflaheimilda, græðgi og misskipting þjóðarauðs þar sem örlítill hluti þjóðarinnar fékk gríðarleg auðæfi á silfurfati sem þau hafa fénýtt af miskunnarleysi í garð samborgara sinna, og veltast nú um í vellystingum meðan stærstur hluti landsmanna býr við basl og örbirgð.“
Þetta er úr grein Ingu Sæland sem birt er í Mogga dagsins. Þar fjallar hún um Samherjamálið á sama hátt og flestir hafa gert. Hún rifjar upp önnur vond mál:
„Samherjahneykslið er hið síðasta í langri röð ömurlegra mála sem orða má við alvarlega spillingu. Hrunið 2008 með öllum þeim ljótleika sem þar kom fram og eyðilagði líf þúsunda saklausra Íslendinga. Panama-skjölin og Wintris-mál núverandi formanns Miðflokksins sem kostaði hann forsætisráðherrastólinn. Djöflamessa Miðflokksins á Klaustri fyrir ári hvar opinberaðist hvernig flokkar hafa notað sendiherrastöður sem skiptimynt í valdabitlingum. Gjaldþrot WOW-flugfélagsins þar sem öll kurl eru vart komin til grafar. Grái listinn. Og nú Samherjamálið. Öll þessi dæmi hafa orðið tilefni fjölmiðlaumfjöllunar og hneykslunar á alþjóða vettvangi þar sem orðspor Íslands og Íslendinga hefur beðið hnekki.“
Og hvað er hægt að gera? „Við þurfum endurreisn; – siðbót í atvinnu- og stjórnmálalífi, nýja vendi og nýjar leikreglur við stjórn þjóðfélagsins okkar. Flokkur fólksins er reiðubúinn að taka þátt í slíku starfi.“