Gunnar Smári skrifar:
Hvílík orka sem fer í að að halda uppi gervimarkaði innan heilbrigðiskerfisins. Sjúkratryggingar Íslands, sem er nýfrjálshyggjuhugmynd um ríkið sem gervi-kaupenda á heilbrigðismarkaði (þ.e. liður í að markaðs-, samkeppnis- og einkavæða heilbrigðisþjónustu), kærir sjúkraþjálfara til Samkeppniseftirlitsins, sem á að tryggja samkeppni á okkar örmarkaði, þar sem engin samkeppnis þrífst (nema mögulega í sölu á notuðum bílum). Og hvað græða sjúklingarnir á þessu? Núll. Þeir væru mun betur settir ef Sjúkratryggingar Íslands yrðu lagðar niður og sjúkraþjálfun yrði hluti af þeim stofnunum sem sinna heilbrigðisþjónustu; sjúkrahúsum, göngudeildum og heilsugæslu. Við ættum að horfast í augu við að samfélag sem getur ekki haldið uppi samkeppni í sölu á matvöru og annarri dagvöru ætti ekki að gera það að forgangsverkefni að byggja upp samkeppnismarkað í sjúkraþjálfun. Reynsla annarra þjóða sýnir að útvistun opinberrar þjónustu leiðir til lakari og dýrari þjónustu fyrir sjúklinga, verri vinnustaða fyrir starfsfólk með lægri launum og lakari verkefnum, meiri kostnaðar fyrir ríkissjóð og niðurbrots faglegra markmiða.
Þegar ég axlabrotnaði fyrir tæpum tveimur árum fékk ég tilvísun í sjúkraþjálfun á Borgarspítalanum eftir aðgerð. Vertu þar eins lengi og þú mögulega getur, sögðu bæði læknar og sjúklingar. Hvers vegna? Vegna þess að þar hafa sjúkraþjálfararnir tíma eru ekki að haska þér af til að geta tekið næsta inn, þú ert eins og í meðferð en það er ekki bara verið að afgreiða þig. Ég hafði ekki reynslu af sjúkraþjálfun en ég hafði rætt við lækna á einkastofum og vissi alveg hvað fólkið var að segja; þegar heilbrigðisþjónusta er orðinn business og afgreiðslufyrirtæki sem fá borgað í akkorði (per. viðvik, per. lyfseðil o.s.frv.) þá er sjúklingur fyrst og fremst veski.