- Advertisement -

Kaupþing var svikamylla frá árinu 2005

Eftir síðasta bréf sagði Ármann Þorvaldsson af sér sem forstjóri Kviku. Hvað ætli hann geri núna?

Marinó G. Njálsson skrifar:

Í annað sinn á ekki svo löngum tíma skrifa Kevin Stanford og Karen Millen opið bréf til Ármanns Þorvaldssonar, fyrrverandi yfirmanns hjá Kaupþingi. Fyrra bréfið var með þeim svakalegri sem ég hef lesið. Því fylgdi hellingur af skjölum, sem studdu við staðhæfingar þeirra hjóna um að Kaupþing hefði svindlað á þeim og gert þau (og þá sérstaklega Kevin) að blóraböggli í risastóru svikamáli með skuldatryggingar. Seinna bréfið, sem birt er í Kjarnanum í dag, gefur hinu fyrra ekkert eftir. Staðhæfingar í því ganga svo langt að segja að Kaupþing hafi verið svikamylla frá árinu 2005.

Í fyrra gaf ég út bókina Á asnaeyrum, þar sem ég reyni að taka saman hvað gerðist fram að hruni. Hluti af mínum staðhæfingum var að allt hafi verið tekið að láni, bankarnir meira og minna gengið á blekkingum og að ársreikningar bankanna, og þá sérstaklega Kaupþings, fyrir árið 2007 hafi verið skáldskapur. Í bréfi þeirra hjóna eru færðar sannanir fyrir báðum þessum staðhæfingum með eigin orðum innanbúðarmanna í Kaupþingi. Vitnað er í samtal við Ármann Þorvaldsson, þar sem hann viðurkennir t.d. að hlutbréfaverði í bönkunum hafi verið haldið uppi „til að bjarga Íslandi“. Einnig er vitnað í Jan Petter Sissener, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra hluta­bréfa­við­skipta hjá Kaup­þingi, sem segir að í hlutabréfaútgáfu árið 2006 hafi Kaupþing beitt mjög grófri markaðsmisnotkun til að halda uppi verði bréfa í bankanum. Eftir honum er haft í bréfinu:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Við sölu á bréf­unum vakti það athygli mína að miðl­arar Kaup­þings keyptu hluta­bréfin á mark­aði af mik­illi hörku og sköp­uðu ranga eft­ir­spurn eftir bréf­unum og héldu gengi hluta­bréf­anna hærra en það hefði ver­ið. Öfugt við önnur útboð minnk­aði hlutur Kaup­þings ekki undir 10% heldur raun­veru­lega jókst yfir útboðs­tíma­bil­ið.“

Hann fékk í framhaldi lögfræðiálit og þá hætti Kaupþing að kaupa, en greinilegt var að stjórnendur bankans höfðu hringt í Sigurjón og Bjarna, því aðrir íslenskir bankar hófu að kaupa í staðinn eða eins og haft er eftir Jan Petter:

„Lög­fræði­á­lit Allen and Overy stað­festu mat mitt að þetta væri í raun ólög­legt. Eftir að stjórn­endur Kaup­þings fengu í hend­urnar lög­fræði­á­lit Allen and Overy og þungar umræður í kjöl­far­ið, stöðv­að­ist mark­aðs­mis­notkun Kaup­þings, en aðrir íslenskir bankar fóru að kaupa af miklum móð.“

Bréf Kevin Stanford og Karen Millen er langt og með fullt af fylgiskjölum. Veit ég ekki hve margir munu hafa úthald í að lesa það til enda og sjálfur er ég bara kominn í gegn um bréfið en á eftir fylgiskjölin. Eftir síðasta bréf sagði Ármann Þorvaldsson af sér sem forstjóri Kviku. Hvað ætli hann geri núna? Getur FME hunsað það lengur að rannsaka ásakanir þeirra hjóna? Ég ætla ekki að halda því fram að Kevin Stanford hafi verið einhver nytsamur sakleysingi í fléttu Kaupþings, en bankinn valdi greinilega rangan mann til að svindla á. Hann ætlar ekki að fara niður án þess að taka a.m.k. Ármann Þorvaldsson með sér.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: