- Advertisement -

Borginni barst alvarlegt skammabréf

Áfellisdómur yfir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.

Það var ekki logn á síðasta fundi borgarráðs. Alls ekki. Tilefnið var harðort bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

Sjálfstæðisfólkið í ráðinu bókaði af þessu tilefni:

„Bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) frá 11. október sl. er áfellisdómur yfir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Í bréfinu kemur fram að ekki var fylgt eftir ábendingum innri endurskoðunar frá árinu 2015 og farið var frjálslega með fjárheimildir m.a. í svokölluðu braggamáli. Í bréfinu kemur fram að verkferlar umhverfis- og skipulagssviðs m.t.t. notkunar fjárheimilda hafi verið ábótavant og að eftirlitsferlar Reykjavíkurborgar hafi brugðist. Svör Reykjavíkurborgar til eftirlitsnefndarinnar, sem send voru 12. júní síðastliðinn teljast ófullnægjandi og segir í niðurlagi bréfsins: „Þar sem að svari Reykjavíkurborgar verður ekki ráðið hvort úrbætur hafi verið gerðar, óskar EFS hér með eftir upplýsingum um hvort verkferlar innri endurskoðunar um tilkynningar og eftirfylgni með úrbótum vegna frávika og verkferla umhverfis og skipulagssviðs með tilliti til notkunar fjárheimilda, hafi verið bættar.“ Það er því ljóst að verkferlar borgarinnar hafi verið í molum en jafnframt eru svör borgarinnar það takmörkuð að eftirlitsnefndinni er í reynd sýnd lítilsvirðing.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Meirihlutinn ber af sér gagnrýnina.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og hennar fólk, svöruðu að bragði:

„Framangreind bókun felur í sér grundvallarmisskilning á erindi eftirlitsnefndarinnar og svörum Reykjavíkurborgar. Eins og fram er tekið í bréfinu sjálfu er tilgangur nefndarinnar ekki að fjalla sérstaklega um efnislegar niðurstöður skýrslunnar heldur nánar tiltekin atriði sem lúta að almennri fjármálastjórn sem laga þarf. Ábendingar nefndarinnar í umræddu bréfi snúa að verklagi innri endurskoðunar, endurskoðunarnefndar og ytri endurskoðenda við eftirfylgni ábendinga eins og skýrt er tekið fram í niðurlagi bréfsins. Í lok erindisins er óskað eftir upplýsingum um hvernig verkferlar innri endurskoðunar hafi verið bættir og verður þeirri viðbótarspurningu að sjálfsögðu svarað af hálfu innri endurskoðunar. Ítarlega hefur verið farið yfir allar þær úrbætur sem gerðar hafa verið í kjölfar skýrslu innri endurskoðunar á almennri fjármálastjórnun og því er það vindhögg sem slegið er í framangreindri bókun öllum augljóst.“

Eyþór Arnalds, og samherjar hans var ekki hættur:

„Bréf eftirlitsnefndarinnar er ekki sent að ástæðulausu og skýrir sig sjálf. Borgin hefur ekki svarað spurningum nefndarinnar um úrbætur og er það ámælisvert. Pólitísk gagnbókun breytir ekki þeirri staðreynd. Hún snýst nú samt jörðin.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: