Í nútímasamfélagi gerum við kröfur um vegsamgöngur allt árið.
Arna Lára Jónsdóttir Samfylkingu á Alþingi:
Mig langar að taka upp málefni Árneshrepps og vekja athygli þingmanna á stöðunni sem þar eru uppi. Í dag, 23. október, er ófært í Árneshrepp. G-snjómokstursreglan er í gildi sem þýðir að það er aðeins mokað vor og haust. Kostnaður við að bæta snjómokstur í Árneshreppi er eins og eitt sandkorn í Landeyjahöfn. Það á ekki að laga veginn í Árneshrepp, alla vega ekki næstu fimm árin samkvæmt nýrri samgönguáætlun sem hæstvirtur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti í síðustu viku. Vegur um Veiðileysuháls sem tengir Árneshrepp við umheiminn er samkvæmt áætluninni á 2. tímabili, sem þýðir 2024–2028. Stjórnvöld hafa brugðist hreppnum. Árið 2003 var samþykkt þingsályktun um sérstaka byggðaaðstoð um svæðið en lítið varð um efndir og var hver samþykkt tillaga af annarri svæfð svefninum langa í meðförum stjórnvalda.
Á þinginu 2011–2012 var lögð fram þingsályktunartillaga um sérstaka flýtingu vegaframkvæmda í Árneshreppi og voru flutningsmenn bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu. Tillagan var ekki afgreidd þótt viljinn væri mikill. Árið 2014 sótti Árneshreppur um að verða þátttakandi í verkefninu Brothættar byggðir en var hafnað, en var svo tekinn inn árið 2017. Þetta verkefni hefur skipt miklu máli fyrir lífsgæðin í hreppnum en slagkraftur og fjármagn í því verkefni í heild sinni er ekki nægur og stjórnvöld vinna ekki nógu vel með þær hugmyndir sem þar koma fram. Nú eru íbúar hreppsins innan við 50. Í nútímasamfélagi gerum við kröfur um vegsamgöngur allt árið, rafmagnsöryggi og ljósleiðarasamband, en ekkert af þessu búa íbúar í Árneshreppi við.