Furðurök Más Guðmundssonar
Segi ekkert meira, en er með ákveðið orðatiltæki í huga.
Marinó G. Njálsson skrifar:
Þegar menn eru komnir í vörn, þá fara þeir að tala um eitthvað annað. Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, skrifar grein sem hann fær Kjarnann til að birta. Hann kemur með nokkur furðurök sem breyta ekki þeirri staðreynd að fjárfestingarleið bankans var notuð til að flytja fé úr skattaskjólum. Þessi rök hans eru:
- 1. Seðlabankinn hafði opnað leið fyrir fé úr skattaskjólum þegar árið 2009.
- 2. Viðskiptabankarnir áttu að kanna hvort fé væri að koma úr skattaskjólum.
- 3. Ef Seðlabankinn hefði átt að sjá um að kanna hvort verið væri að þvætta fé, þá hefði það þýtt kostnað fyrir bankann.
- 4. Það tókst að lækka snjóhengjuna um 175 ma.kr.
- 5. Bankarnir áttu að þekkja viðskiptavini sína.
- 6. Grálistunin var ekki vegna fjárfestingarleiðarinnar.
Skoðum þetta:
- 1. Glæsilegt Már hafði þegar opnað leið fyrir peningaþvætti og það réttlætir að hún var höfð áfram opin. Áttu annan betri?
- 2. Já, viðskiptabankarnir hefðu átt að gera það, en samt var tekið við fé út skattaskjólum.
- 3. Aumingja Seðlabankinn. Það hefði kostað hann pening að sinna eðlilegu eftirliti.
- 4. Já, virkilega flott, en hún hefði líka lækkað, ef eðlilegt eftirlit hefði verið viðhaft. Hugsanlega tekið lengri tíma.
- 5. Bankarnir þekktu einmitt viðskiptavini sína og áttu því að vita, að mjög margir þeirra sem voru að koma með fjármuni til landsins voru til rannsóknar í stórum fjársvikamálum. Einhverjir voru meira að segja dæmdir. Eins og Þórður Snær orðaði það, þá mættu menn í réttarsal fyrir hádegi og tóku þátt í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans eftir hádegi. Margir þeirra, ef ekki allir, komu síðar fram í Panamaskjölunum. Já, bankarnir áttu að þekkja sína viðskiptavini og vita að þeir höfðu óhreint mjöl í pokahorninu. Seðlabankinn átti að vita það líka og spyrja viðskiptabankana áleitinna spurninga.
- 6. Það var enginn að halda því fram að grálistunin væri vegna leiðarinnar.
Már segir, að hann hafi ekki ætlað að hafa sig fram svona stuttu eftir að hann hætti sem seðlabankastjóri. Hann hefði betur haldið sig við þá ákvörðun. Segi ekkert meira, en er með ákveðið orðatiltæki í huga.