- Advertisement -

Sósíalistar hafna umferðarsköttunum

Tillaga Sósíalistaflokks Íslands um fyrirvara við samgöngusáttmála, sem verður lögð fyrir á næsta borgarstjórnarfundi:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir sáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, með eftirfarandi fyrirvörum. Í fyrsta lagi að fallið verði frá öllum fyrirætlunum um flýti- og umferðargjöld, eða svokölluðum veggjöldum sama hvaða nöfnum þau kunna að nefnast. Í öðru lagi að Keldnaland verði ekki selt til hæstbjóðenda heldur úthlutað til húsbyggjenda, verkamannabústaða, byggingarsamvinnufélaga, þar með talið byggingarsamfélaga leigjenda og annarra sem hafa áhuga á að byggja sér húsnæði þar. Í þriðja lagi að lagt verði meira í Borgarlínu og strætó og að tryggt verði að almenningssamgöngur verði byggðar upp samkvæmt væntingum þeirra sem nota þær.


Nánar um tillöguna:

Við sósíalistar fögnum uppbyggingu almenningssamgangna en teljum að sameiginlegir sjóðir okkar; skattarnir eigi að greiði fyrir þá uppbyggingu. Við borgum öll skatta fyrir það sem við notum sameiginlega, eða ættum að gera það en þegar við skoðum hlutina, þá er það ekki þannig í raun. Þegar við lítum yfir síðustu áratuguna, síðustu 20-25 árin eða svo, þá sjáum við hvernig skattar hafa verið léttir af hátekjufólki og fjármagnseigendum og skattbyrðin færð yfir á lágtekjufólk. Með því að gefa þeim allra auðugustu skattafslátt, þá erum við ekki að standa okkur gagnvart grunnstoðum samfélagsins og höfum brugðið á það ráð að innheimta gjaldið annars staðar frá.

Í öðru lagi að Keldnaland verði ekki selt til hæstbjóðenda heldur úthlutað til húsbyggjenda.

Við höfnum því veggjöldum. Þar að auki bitna þau harðast á þeim sem hafa lægstu tekjurnar. Í staðinn væri t.d. hægt að taka upp kerfi eins og kílómetragjald, þar sem viðkomandi greiðir gjald eftir því hvað hann hefur ekið marga kílómetra. Inn í það væri hægt að innleiða ákveðið gjald fyrir bensínbíla, vistvæna bíla o.s.frv. Inn í þá gjaldskrá væri svo hægt að setja inn ákvæði um að þeir sem væru tekjulægstir greiði aldrei meira en eitthvað ákveðið.

Með því að auglýsa lóðir í útboð þá fara þær til hæstbjóðenda. Slíkt hefur síðan áhrif á verðlag íbúðanna. Við þurfum að fara út úr þessu kerfi þar sem lóðir eru seldar til hæstbjóðenda með mesta fjármagnið og úthluta lóðum til þeirra sem munu koma til með að búa á svæðinu, líkt og til byggingarsamvinnufélaga. 
Varðandi almenningssamgöngur, þá viljum við sjá að þeim sé gert hærra undir höfði, þ.m.t. að gert verði ráð fyrir fleiri áföngum Borgarlínu. Núverandi samkomulag gerir eingöngu ráð fyrir 1. áfanga og nokkrum aukatengingum. Þá er ekki síður mikilvægt að tryggja að þessi samningur dragi ekki úr framkvæmdum við strætóuppbyggingu sem ella hefði verið ráðist í.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: