- Advertisement -

Sagan af Reykjavíkurborg og „týndu“ bílunum hennar

„Bílarnir hafa verið þarna í nokkra mánuði. Fjórir þeirra ganga fyrir metani en einn fyrir dísel.“

„Grátlega fyndið er að nú eigi að stofna starfshóp um farartækjaflota Reykjavíkurborgar nú en líklega er það löngu tímabært miðað við fréttir síðustu daga um „týnda“ bíla borgarinnar. Engin yfirsýn er yfir bílaeign borgarinnar og fundust tveir yfirgefnir bílar með skráningarnúmerunum RX-X04 og FM-E45 sem reyndust í eigu borgarinnar í bílakjallara í rótgrónu íbúðahverfi. Þar höfðu þeir staðið óhreyfðir í hátt á annað ár að sögn íbúa, þeim til mikils ama og óþæginda. Hvernig getur Reykjavíkurborg týnt bílunum sínum með þessum hætti? Hvers vegna var þeim komið fyrir á þessum stað? Hver var skráður ábyrgðarmaður fyrir bílunum? Reykjavíkurborg skuldar borgarbúum handbær svör sem varpar ljósi á málið.“

Það var Vigdís Hauksdóttir sem bókaði svo á borgarráðsfundi. Meirihlutinn svaraði:

„Um er að ræða fimm bíla sem hafa verið í bílastæðum í Bryggjuhverfi sem borgin hefur til umráða. Bílarnir hafa verið þarna í nokkra mánuði. Fjórir þeirra ganga fyrir metani en einn fyrir dísel. Borgin á nokkurn fjölda bíla sem hún leigir sviðum borgarinnar. Þegar notkun sviðanna á bílunum dróst saman voru nokkrir þeirra seldir í gegnum bílasölur – en metið sem svo að geyma nýjustu bílana um stund til að nota innan kerfis. Þrír þessara fimm bíla hafa nú verið teknir í notkun af umhverfis- og skipulagssviði. Yfirsýn yfir bílaflota borgarinnar hefur alltaf legið fyrir og þótt lítill hluti af bílum borgarinnar séu geymdir um skemmri eða lengri tíma er varasamt að álykta um stjórnun flotans eða yfirsýn.“

Eyþór Arnalds:
„Reykjavíkurborg hefur varið milljörðum króna af peningum skattgreiðenda í farartæki.“

Þetta er spennandi. En alls ekki allt. Sjálfstæðismenn bókuðu:

„Reykjavíkurborg hefur varið milljörðum króna af peningum skattgreiðenda í farartæki. Farartækin eiga að vera keypt til að veita nauðsynlega og mikilvæga þjónustu sem sannanlega þau gera ekki þegar þau eru látin rykfalla í bílageymslum út í bæ án nokkurra haldbærra skýringa. Þá vekur athygli í þessu samhengi að Reykjavíkurborg hefur greitt starfsmönnum tvo milljarða í akstur á eigin bifreiðum frá árinu 2011. Allar þessar greiðslur hafa átt sér stað þrátt fyrir umhverfisstefnu og nú er stofnaður enn einn starfshópurinn um farartækjaflotann.“

Meirihlutinn heldur í varnarleikinn: „Það er rangt af Sjálfstæðisflokknum að halda því fram að verið sé að verja milljörðum í farartæki þegar vísað er til þess að starfsfólk fær greitt fyrir að keyra eigin bíla á vinnutíma,“ bókuðu þau.

Eyþór og félagar voru ekki hætt: „Rétt er rétt. Borgin hefur varið milljörðum króna í bíla með beinum og óbeinum hætti. Allt tal um að það sé rangt stenst ekki skoðun, enda liggur bókhald borgarinnar fyrir. Stundum er sannleikurinn óþægilegur. Hann liggur samt fyrir. Hún snýst nú samt jörðin.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: