- Advertisement -

Það kostar að hafa Bjarna Ben sem fjármálaráðherra

Það kostar að leyfa græðginni að ráða för.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Það kosta að halda uppi íslensku auðstéttinni. Það kostar að leyfa fámennum hópi að greiða sjálfum sér milljarða í fjármagnstekjur. Það kostar að leyfa fjármagnseigendum að fá endalausan og kerfisbundinn skattafslátt. Það kostar að halda uppi eignastétt sem ekki aðeins sogar til sín arðinn sem vinna vinnuaflsins skapar og neitar svo að leggja eðlilega til samfélagsins í gegnum skatta, heldur bætir um betur og sendir risastórar fjárhæðir í skattaskjól, svo að þær megi þar vaxa og dafna á meðan velferðarkerfið okkar hrörnar og hrynur.

Það kostar að hafa pólitíska valdastétt sem leyfir þvi að gerast að 300 manneskjur skipti á milli sín 46 milljörðum, á meðan hún felur sig á bak við tal um „eina þjóð“. Það kostar að þykjast ekki geta gert neitt til að endurúthluta réttmætri eign samfélagsins, öllum þessum endalausu milljörðum sem forstjórar, fjárfestar, bankastjórar og útgerðarmenn gefa sjálfum sér. Það kostar að lifa eftir brauðmolahagfræðinni, það kostar að skipta kökunni ekki jafnt, það kostar að taka ekki af skarið, það kostar að bíða eftir því að auðstéttin kaupi sig endanlega fram fyrir allar raðirnar og allt álagið og smíði handa sjálfri sér heilbrigðiskerfi, skólakerfi, umönnunarkerfi hinna ríku. Það kostar að láta sem „the crisis of care“ sé ekki raunveruleg, sé ekki afleiðing nýfrjálshyggjunnar og arðránsins. Það kostar að hafa Bjarna Ben sem fjármálaráðherra. Það kostar að leyfa græðginni að ráða för þegar samfélagsleg gildi eru ákvörðuð og það er alltaf „venjulega“ fólkið sem ber þann kostnað. Alls staðar og alltaf.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: