Skoðun Forsvarsmenn fjárlaganefndar Alþingis hafa farið mikinn eftir að upplýstist að nokkrar ríkisstofnanir hafa ekki farið að fjárlögum, eða réttara sagt, forráðamenn nokkurra ríkisstofnanna hafa eytt meiri peningum en þeir hafa heimild til að gera. Það bara má ekki.
Vigdís Hauksdóttir, formaður nefndarinnar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, hafa sagt hverslags ósvinna þetta er. Sem er alveg rétt. Það ber að virða lög, það ber að virða ákvarðanir þeirra sem ráða. Vigdís og Guðlaugur Þór ráða ýmsu. En ekki öllu.
Ég heyrði Vigdísi, í Bítinu á Bylgjunni, í morgun taka Vegagerðina sem dæmi um stofnun sem ekki virði fjárlög. Vigdís ræður ýmsu, en ekki veðrinu. Formælandi Vegagerðarinnar sagði einhversstaðar að veturinn hafa verið erfiðan. Mikill snjómokstur. Við sem munum veturinn, munum að mikið var kvartað vegna þess að moka þurfti meiri snjó en gert var. Vegagerðin var gangrýnd fyrir að á meðan aðrar ríkisstofnanir standa að átakinu Ísland allt árið, væri lágmark að riðja snjó svo landsgestirnir komist leiða sinna.
Formælandi Vegargerðarinnar hafði á orði að þegar svo illa árar hafi sú venja skapast að hallinn væri leiðréttur í fjáraukalögum. Það sagði Vigdísi lýsandi dæmi um anda fyrri ríkisstjórnar. Núverandi ríkisstjórnin heimili ekki þesskonar hugsunarhátt, hvað þá að talsmenn stofnana geti framvegis bankað upp á óskað meiri peninga.
Nú held ég að réttast sé að hinkra við og gera rétt mátulega mikið með það sem formaður og varaformaður fjárlagaefndar hafa um málið að segja. Grunur minn er sá, að vaninn sigri þau bæði, Vigdísi og Guðlaug Þór.
Hitt er svo annað. Þetta er fráleitt allt saman. Það má ekki eyða því sem ekki er til. Þá er best að spyrja hvort Vigdís og Guðlaugur Þór séu sárasaklaus af stöðunni sem nú er uppi.
Auðvitað er svarið nei. Það var greinilega rangt gefið í nokkrum tilfellum. Og það voru Vigdís og Guðlaugur Þór sem gáfu spilin. Þeim ber að líta ekki síður í eigin barm en annarra.
Sigurjón Magnús Egilsson.