Skoðun Við eigum helst bara að fá hingað ferðafólk sem kemur til með að eyða miklum peningum, sem skilur nógu mikið af peningum eftir, fólk sem við græðum á. Þetta er sjónarmið ert til og eitt því galnasta sem heyrist. Samt er til fólk, fólk sem vill að það sé tekið alvarlega, sem talar svona, og líka fólk sem tekur sjálft sig svo alvarlega að okkur hinum kann að þykja nóg um. Auðvitað metum við ekki gesti okkar eftir efnahag og lífsháttum. Þegar ég heyri fólk fara með þessa rullu sé ég einatt fyrir mér samskonar reglu virkjaða í Kringlunni.
Á reiðhjóli með núðlur í bakpokanum
Pælum í hversu margir fara þangað inn án þess að versla, fólk sem gengur um gólf og um verslanir, notar salernin og ég veit ekki hvað, það þarf að þrífa eftir þetta fólk, því er boðin góður dagur, spurt hvort megi aðstoða þau, og svo kaupir það ekki neitt og ætlaði kannski aldrei að kaupa neitt. Er þá ekki réttast að þeir einir fari í Kringluna sem eiga eitthvað undir sér. Efnahagur og lífsmáti verði metinn áður en fólk fær að fara inn í Kringluna, eða Smáralind eða á Laugaveginn. Nei, takk.
Auðvitað eru allir velkomnir til Íslands. Getur verið að hjólreiðafólk sem kemur með Norrænu, hjólar hringinn og hefur með sér tjald, núðlur og annan viðurgjörning séu hinir bestu gestir. Fari vel með allt, virði land og náttúru og okkur íbúana. Og eftir heimkomuna gerist það ómeðvitað okkar bestu kynningarfulltrúar. Það má kannski spyrja í hverju mestur gróðinn er? Er hann endilega þar sem ferðamenn borga 3.500 krónur fyrir hamborgara, hamborgara sem er eins óspennandi og nokkur hamborgari getur verið, og hamborgaraseljandinn græðir gnótt? Er það takmarkið, að selja dýrt, selja lélegt, græða og græða, fá ferðafólkið til mislíka við verð og vöru? Nei, það held ég ekki.
Girðum okkur í brók
Bjarni Fel sagt oft í sínum lýsingum á fótboltaleikjum, þegar illa gekk, að menn yrðu að girða sig í brók. Kannski er komið að því að við girðum okkur í brók. Hættum að láta okkur dreyma um að hingað komi einungis ferðamenn sem borga þegjandi og hljóðalaust uppsett okurverð á hverju sem er. Í sumar var ég, sem svo oft, að keyra Miklubrautina. Á mótum Miklubrautar og Lönguhlíðar stoppaði ég á rauðu ljósi, þar stóð ung kona, greinilega erlend, með skilti sem á stóð Esja. Milli hennar og bílsins voru örfáir metrar og ég á leið í Mosó. Svo ég bauð henni far. Hún reyndist vera frá Danmörku. Ég ákvað að aka henni alla leið, að gönguleiðinni á Esju. Þar sem ég hef margoft farið á Esjuna töluðum við um væntanlega fjallgöngu hennar, hversu mér þykir gott að ferðast um Danmörku og fleira, einsog fólk jafnan gerir.
Nú hún sagðist gista hjá vinafólki og bar með sér að vera ekki eyðslukló. Þá daga sem hún hafði verið á Íslandi hafði hún upplifað og reynt margt sem hana hafði ekki dreymt um. Hún átti ekki orð yfir landið okkar, fegurð, náttúruna og fólk einsog mig, sem bauðst til að létta undir með henni, án þess að fá greitt fyrir, eða hún yrði skuldbundin á nokkurn hátt.
Þegar við komum upp á hálsinn í Kollafirði og hún sá að skógræktinni við Mógilsá og að Esjurótum, og þá mörgu grænu liti sem þar eru, horfði hún á full aðdáunar og leyndi hrifningu sinni hvergi. Það var gaman að verða vitni að upplifun hennar.
Ég er ekki í minnsta vafa að danska, unga konan hefur lýst Íslandsferðinni með þeim hætti, eftir að hún kom heim, að marga aðra langi til að koma hingað. Miklu frekar en svekkti ferðamaðurinn sem át þurra og vonda hamborgarann á þrjú þúsund og fimm hundruð krónur, þegjandi og hljóðalaust. Sá skyldi eflaust eftir sig skyndigróða hér og þar. Jafnvel svarta peninga á einstaka stað, peninga sem smyglað er framhjá kerfinu. Eflaust sagði hann ótt og títt frá verðlagningunni, það er okrinu, áður en landið og stórbrotin náttúran komst að.
Hvað með aukna skatta?
Viti ég rétt þá skattleggjum við ferðaþjónustuna minna en margar aðrar þjóðir. Það er kannski það næsta sem við eigum að gera. Auðvitað eru stórkostleg tækifæri falin í milljón ferðamönnum á ári. Í þeim er svo mikið afl að við getum gjörbreytt mörgu, ekki síst samgöngum, sem eru okkur svo mikilvægar. Til þess þarf pólitíska forystu og alls ekki pólitískar kreddur, til að mynda að sjónarmiðið að vera á móti sköttum, verði sett til hliðar og að við setjum okkur alla vega jafnfætis öðrum hvað varðar skattlagningu annarra þjóða. Notum aflið til jákvæðra breytinga.
(Pistill sem var fluttur í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í gær).