„Skólarnir í Reykjavík eru rústir einar á vakt borgarstjóra undanfarin ár. Að tala um aukið fjármagn í skólana nú er of seint fram komið og of lítið. Það sjá og vita allir,“ sagði Vigdís Hauksdóttir á borgarstjórnarfundi í gær.
Vigdís amast við endurgerð Óðinstorgs: „Athugasemd er gerð við kostnað á endurgerð Óðinstorgs fyrir framan heimili borgarstjóra, sérstaklega í ljósi þess hve viðhaldi skólabygginga hefur verið ábótavant með þeim afleiðingum að húsnæði er víða orðið heilsuspillandi og í sumum tilfellum þurft að loka því. Þetta er skýrt dæmi um ranga forgangsröðun en í innkaupayfirliti kemur fram að kostnaðurinn við Óðinstorg sé tæpar 280 milljónir en viðhald á skóla- og leikskólabyggingum sé aðeins rúmar 100 milljónir.“
Meirihlutinn hlaut að gera athugasemdir við fullyrðingar Vigdísar:
„Það er furðuleg árátta að reyna að gera framkvæmdir við Óðinstorg tortryggilegar. Tillaga um endurgerð þess og tveggja annarra torga var fyrst sett fram af Evu Maríu Jónsdóttur fulltrúa íbúa í Miðborgarstjórn árið 2001. Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn náði völdum í borginni tóku borgarfulltrúar hans málið upp á sína arma og samþykktu tillögu um að ráðast í verkefnið kjörtímabilið 2006-2010. Það frestaðist hins vegar í mörg ár vegna hrunsins. Núverandi framkvæmdir tengjast ekki síst endurgerð lagna sem eru komnar mjög til ára sinna, líkt og víðar í miðborginni,“ segir meirihlutinn, og svo þetta:
„Í bókun borgarfulltrúa Miðflokksins er því einnig haldið fram að framkvæmdir á torgum bitni á viðhaldi skóla. Það er alrangt enda eru framkvæmdir í skólum, bara á þessu ári um 1,5 milljarður, ekki 100 milljónir eins og ranglega er haldið fram í bókuninni.“
Vigdís steig aftur í pontu: „Menn eiga að hafa manndóm í sér að láta lögbundna þjónustu og grunnþjónustu ganga fyrir þegar borgin er svo illa rekin eins og nú er. Það er afar ósmekklegt að borgarstjóri sjálfur hafi ekki lagt til frestun á þessu verkefni beint fyrir utan heimili sitt þar til hann léti af störfum sem borgarstjóri. Á gamalkunnan máta náði meirihlutinn að kenna bæði hruninu og Sjálfstæðisflokknum um að farið var í verkefnið nú. Það verður að teljast heimsmet í hræsni.“