Vigdís magalendir í skurði
Einþáttungur úr borgarráði:
Vigdís: „Lagatæknileg atriði hindra að hægt sé að taka kæru mína til efnismeðferðar í efstu lögum stjórnsýslu ríkisins. Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins segir: „Á grundvelli framangreindrar niðurstöðu tekur ráðuneytið því kæruna ekki til efnislegrar meðferðar.“ Alvarlegar athugasemdir dómsmálaráðuneytisins, Póst- og fjarskiptastofnunar og Persónuverndar sem bárust borgaryfirvöldum fyrir kosningar undirstrika alvarleika málsins. Þær voru að engu hafðar og sífellt fundnar nýjar hjáleiðir til að hrinda verkefninu í framkvæmd og var því um einbeittan ásetning að ræða að snerta við þessum hópum. Persónuvernd sem er eftirlits- og undirstofnun dómsmálaráðuneytisins úrskurðaði um lögbrot á persónuverndarlögum. Meirihlutinn er rúinn trausti og situr á valdastólum á grunni vafans um hvernig úrslit kosninganna væru hefði ekki verið farið í ólöglegar snertingar við kjósendur. Ljóst er að breyta þarf lögum á þann hátt að hægt sé að ógilda kosningar komist upp um kosningasvindl eftir sjö daga kærufrest laganna. Er því beint til dómsmálaráðuneytisins ásamt því að kosningaeftirliti verði komið á í næstu borgarstjórnarkosningum og hvatt er til þess að ráðuneytið geri lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE viðvart. Kosningaeftirlitinu er ætlað að tryggja frjálsar og lýðræðislegar kosningar.
Þórdís Lóa og félagar: „Leiðangur áheyrnarfulltrúa Miðflokksins í borgarráði er orðinn afar vandræðalegur og hefur borgarfulltrúinn enn á ný magalent út í skurði. Í leiðinni hefur fulltrúinn sóað tíma og fjármunum borgarinnar. Reikningurinn sem greiðist úr borgarsjóði vegna þessarar erindisleysu hans er um tvær milljónir.“
Vigdís: „Hroki, ósvífni og óheiðarleiki einkennir bókun meirihlutans. Það er ekki borgarfulltrúi Miðflokksins sem komst að því Reykjavíkurborg braut lög í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Það var Persónuvernd sem er undir- og eftirlitsstofnun dómsmálaráðuneytisins. Rétt er að benda meirihlutanum á að áfallinn kostnaður hefði aldrei komið til hefði borgarstjóri og þáverandi meirihluti fallið frá áformum um aðgerðir að snerta þrjá hópa fyrir kosningar eins og eftirlitsstofnanir ráðlögðu. Ekki var farið að ábendingum dómsmálaráðuneytisins og þeirra eftirlitsstofnana ríkisins sem gerðu athugasemd við kosningaverkefnið. Verkefnið var allt rekið af skrifstofum borgarstjóra og ráðhússins en alvarlegast er þó að erindi dómsmálaráðuneytisins sem sent var 23. maí 2018 til borgarinnar, var ekki tekið fyrir af yfirkjörsókn fyrr en að afloknum kosningum sem haldnar voru 26. maí. Ítrekað er að kosningaeftirliti verði komið á í næstu borgarstjórnarkosningum og hvatt er til þess að dómsmálaráðuneytið geri lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE viðvart. Í stað þess að iðrast og biðjast afsökunar er ráðist að borgarfulltrúanum sem borið hefur úrskurð Persónuverndar uppi til að tryggja að farið sé að lögum og koma í veg fyrir að vegið sé að lýðræðinu í lögbundnum kosningum.“
Þórdís Lóa og félagar: „Ekki verður brugðist við innihaldslausum ásökunum og dylgjum áheyrnarfulltrúa Miðflokksins en það lá í augum uppi sem allflestir lögfróðir menn vissu að leiðangur borgarfulltrúans var á sandi byggður enda hafið yfir allan vafa að kærufrestur var liðinn og ekkert að finna í lögum né athugasemdum með frumvarpi til laganna um heimild til að framlengja kærufrestinn. Borgarfulltrúinn hefði betur mátt hafa vaðið fyrir neðan sig í stað þess að eyða tíma í erindisleysu með tilheyrandi kostnaði.“
Vigdís: „Ekki er hægt að taka kosningasvindlið til efnisúrskurðar vegna lagatæknilegra ágalla. Það er alvarlegt lýðræðinu að heimilt er að svindla í kosningum ef ekki kemst upp um svindlið innan sjö daga ákvæðis laganna. Skömmin er öll borgarstjóra. Það fríar borgarstjóra og þáverandi meirihluta ekki ábyrgð þar sem samkvæmt úrskurði Persónuverndar voru lög brotin. Ítrekað er að kostnaðurinn hefði aldrei komið til hefði verið hlustað og farið eftir ráðleggingum eftirlitsstofnana og dómsmálaráðuneytisins fyrir kosningar. Bókanir meirihlutans eru smjörklípa til að skauta yfir alvarleika málsins.“
Eyþór og hans fólk: „Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja óheppilegt að ekki sé hægt að taka kæru vegna borgarstjórnarkosninganna til efnislegrar meðferðar. Fyrir liggur að borgin braut lög um persónuvernd í aðdraganda kosninganna og virti að vettugi varnaðarorð. Lögum samkvæmt er kærufrestur mjög þröngur og mætti endurskoða þau ákvæði þegar fram koma lögbrot eftir að kærufresti lýkur líkt og gerðist eftir borgarstjórnarkosningarnar 2018.“
Sögulok.