Innflytjendur Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, sagðist í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í gærmorgun, ekki vera sammála því að gera eigi kröfu um að þeir sem fái íslenskan ríkisborgarrétt kunni íslensku.
Hún sagði mál innflytjenda vera viðkvæm og erfið. „Þess vegna hef ég lagt til að við reynum að ná sátt í því og lærum af nágrannaþjóðunum. Þær þjóðir myndu allar segja okkar að fara varlega, taka vel utan um viðfangsefnið og tryggið að þetta verði aldrei togstreita. Það er vandmeðfarið og þess vegna hef ég myndað þverpólitískan hóp um þetta sem Óttar Proppé stýrir og ég sit í hópnum. Þar reynum við að tala okkur í gegnum þetta svo hér verði þetta ekki einsog það hefur víða orðið.“
Togstreita milli landa
Hanna Birna sagðist hafa nýverið setið fund með evrópskum samráðherrum sínum. Hún sagði þennan fund ólíka öðrum svipuðum fundum sem hún hefur setið vegna hversu mikil togstreita var milli ráðherranna. „Þetta er erfitt fyrir Evrópu þar sem hagsmunirnir eru svo ólíkir.“ Hún sagði flóttafólk mest koma til landanna syðst í Evrópu og löndin þar ráði hreinlega ekki við verkefnið og þá deili ríkin norðar í álfunni á þau lönd og saka þau um að hugsa ekki nógu vel um fólkið. Hælisleitendum þar hefur fjölgað um þriðjung, bara á þessu ári. „Á ráðherrafundinum gerði innflytjenda ráðherra Þýskalands kröfu um að á næsta fundi yrðu einnig utanríkisráðherrar þjóðanna, málið væri orðið þess eðlis og milliríkjaumræðuna yrði að formgera meira en nú er.“
Hanna Birna segir Ísland eiga mikil sóknarfæri í þessum málum. „Ég vil líta á innflytjendamálin sem tækifæri, sem tækifæri en ekki sem vandamál. Hælisleitendur eru eitt, en að fá hingað strauma af nýju fólki., kraftmiklu og duglegu er bara gott og við eigum að fagna þessum fjölbreytileika.“
Fjölmenningin er verðmæti
Má skilja þig þannig að þú viljir opna möguleika fólks til að koma hingað?
„Já. Ég tel að við eigum að taka fagnandi á móti fólki sem hér vill búa, starfa og lifa á eðlilegum forsendum. Ég tel að við eigum að gera það.“ Hanna Birna sagðist ósammála að gera eigi kröfur um að fólk tali íslensku fái það ríkisborgararétt. „Við erum hluti af alþjóðasamfélaginu,“ sagði hún og benti á að við búum í fjölmenningarsamfélagi. „Þetta eru verðmæti. Við eigum að vera einsog fyrirtæki sem vill fá inn eins mikið af öflugu starfsfólki og mögulegt er. Langar okkur að Reykjavík verði aftur einsog hún var fyrir tuttugu eða þrjátíu árum?.“
Hanna Birna segir að tekist hafi að stytta biðtíma hælisleitenda mikið, það er þann tíma sem tekur að svara hvort þeir verði sendir burt eða ekki. „Það er mannúðlegra og kostnaðurinn verður minni.
Í síðustu viku lásu 69.712 Miðjuna.