- Advertisement -

Bankarnir stóðust erfiða prófið

Árin fyrir hrun. 6. kafli.

Morgunblaðið 31.3.2007.

„Annar og léttari tónn var yfir ársfundi Seðlabanka Íslands í gær en á sama tíma í fyrra, þegar banka- og hagkerfið íslenska lá undir harðri gagnrýni erlendra greiningaraðila. Forsætisráðherra segir allt útlit fyrir að hagkerfið muni ná mjúkri lendingu og standa sveifluna af sér.“

Með þessum orðum hófst löng frétt, um ársfund Seðlabankans, í Morgunblaðinu 31. mars 2007. Í fréttinni segir að Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi sagt í ávarpi sínu að staða efnahagsmála væri almennt talin góð og horfur hér á landi jákvæðar.

Þú gætir haft áhuga á þessum
„Annar og léttari tónn var yfir ársfundi Seðlabanka Íslands í gær en á sama tíma í fyrra,“ sagði frétt Moggans.

„Það hefur vissulega gengið á ýmsu undanfarin misseri enda miklar framkvæmdir við virkjanir og stóriðju auk þess sem mikill atgangur hefur verið á íbúðalánamarkaðnum. Þetta hefur óneitanlega reynt á þanþol hagstjórnarinnar í landinu en allt bendir nú til þess að þjóðarbúið komist senn á sléttari sjó og að fram undan séu rólegri tímar.“

Sagði Geir að spár gerðu ráð fyrir lækkandi verðbólgu og minnkandi viðskiptahalla á árinu, en í því fælist jafnframt að hagvöxtur yrði minni á þessu ári en verið hefur að undanförnu

„Sumir hafa haldið því fram að ríkisstjórnin hefði ekki átt að beita sér fyrir þeim skattalækkunum sem komið hafa til framkvæmda á undanförnum árum. Þessari skoðun hefur áður verið andmælt, meðal annars hér úr þessum ræðustól af forverum mínum í embætti forsætisráðherra og með góðum rökum. Sterk staða ríkissjóðs og miklar tekjur, t.d. af fjármagni og fyrirtækjum, hafa skapað skilyrði til að lækka skatta einstaklinga án þess að valda þenslu.“

Seðlabankastjórinn Davíð Oddsson lofaði framgöngu viðskiptabankanna:


Fjármögnunarvandinn eins og hann blasti við okkur um þetta leyti fyrir ári er úr sögunni.

 „Ekki er vafi á því að sú umræða og það sem henni fylgdi gerði bönkunum erfitt fyrir um hríð. Bankarnir brugðust hart við þeirri óþægilegu stöðu sem upp var komin. Mikið átak var gert til að útskýra uppbyggingu og skipulag íslensku bankanna. Þar var ekkert fum og fát, heldur miklu fremur festa og öryggi sem skilaði árangri. Bankarnir löguðu nokkra þætti í rekstri og rekstrarumhverfi sínu að málefnalegri gagnrýni sem birst hafði og eins kváðu þeir niður þætti sem ómálefnalegri voru með skýringum, greinargerðum og hreinskilnum upplýsingum, jafnt á stórum fundum sem smáum, og maður á mann, eftir því sem gafst best. Á sama tíma þurftu bankarnir um stund að leita á önnur lánamið en hefðbundin voru og er ekki vafi á að þessar aðstæður reyndu mjög á innviði og stjórnun þeirra. Ekki verður annað sagt en að þeir sem í hlut áttu hafi staðist hið erfiða próf. Fjármögnunarvandinn eins og hann blasti við okkur um þetta leyti fyrir ári er úr sögunni og kjör á eftirmarkaði komin í eðlilegra horf á ný og traust á markaði hefur verið endurvakið.“

Sagði Davíð þetta mikið þakkar og fagnaðarefni, en að hitt stæði þó auðvitað eftir að mönnum séu nú ljósari en áður þær hættur sem víða geta leynst í framtíðinni. „Alþjóðleg skilyrði á markaði geta breyst snögglega. Lánsfjáraðgengi, sem á undanförnum misserum hefur verið með eindæmum hagfellt fyrir íslenska banka sem og aðra, kann að breytast skyndilega við óvæntar aðstæður. Mikilvægt er að vera við því búinn að slíkt geti gerst.“

Þá sagði Davíð að þótt undanfarið ár hefði ekki verið eftirsóknarverðir tímar fyrir fjármálafyrirtæki sé ljóst að þau hafi örugglega lært sína lexíu og séu bæði varkárari sjálf og betur á varðbergi fyrir utanaðkomandi áhrifum en áður var.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: