Viðhorf Steingrímur J. Sigfússon var helsti talsmaður síðustu ríkisstjórnar. Pólitískir andstæðingar hans vönduðu honum ekki kveðjurnar. Stundum mátti lesa á netinu ótrúlegar staðhæfingar um hann. Það var vegið að honum persónulega. Meira að segja var gengið svo langt að logið var upp á hann ýmsum sögum. Hann átti meðal annars að hafa framið hjúskaparbrot. Morgunblaðið var, og er eflaust enn, andstæðingur hans og sparaði sig hvergi.
Mogginn og fleiri kepptust við að bera út að Steingrímur var lygari og jafnvel hættulegur þjóðarhag. Sá sem þetta skrifar fékk að heyra margt og lesa um Steingrím þegar hann var gestur þáttarins Sprengisandur á Bylgjunni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er eðli málsins samkvæmt helsti talsmaður núverandi ríkisstjórnar. Pólitískir andstæðingar hans vanda honum ekki kveðjrunar. Stundum má lesa á netinu ótrúlegar staðhæfingar um hann. Það er vegið að persónu hans. Meira að segja er gengið svo langt að það er logið upp á hann ýmsum sögum. Hann á meðal annars að hafa framið hjúskaparbrot. Morgunblaðið er stuðningsmaður hans og sparar sig hvergi.
Margir keppast við að bera út að Sigmundur Davíð sé lygari og jafnvel hættulegur þjóðarhag. Sá sem þetta skrifar fær að heyra margt og lesa um Sigmund Davíð þegar hann er gestur þáttarins Sprengisandur á Bylgjunni.
Það merkilega er að það er allt annað fólk sem amaðist vegna Steingríms en það fólk sem nú amast vegna Sigmundar Davíðs.
Sigurjón Magnús Egilsson.