- Advertisement -

Samtök atvinnulífsins á hálum ís

 Starfsmannaleigur eru verulega áhættusamt og óæskilegt rekstrarform.

Efling.is: Ragnar Árnason, lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins, sagði í fréttum á mánudagskvöld að keðjuábyrgð þeirra sem versla við starfsmannaleigur nái bara til vangreiddra launa. Efling hefur stefnt Mönnum í vinnu og Eldum rétt, sem keypti af þeim vinnuafl, vegna vangoldinna launa, ólögmæts launafrádráttar, og miskabóta vegna þeirra aðstæðna sem mennirnir voru látnir lifa við.

Lögmaður verkamannanna, Ragnar Aðalsteinsson, hafði bent á í viðtali við RÚV hve veik staða þeirra var. Þeir „þekkja lítt til, skilja ekki tungumálið og vita lítið um réttindi sín,“ sagði hann við fréttastofu. Hann benti á að Eldum rétt bar ábyrgð á að sannreyna að kjör mannanna væru fullnægjandi, sem fyrirtækið gerði ekki.

Starfsmannaleigur eru verulega áhættusamt og óæskilegt rekstrarform sem setur millilið milli starfsmanns og atvinnurekanda, með það að markmiði að taka skerf af launum starfsmannsins í eigin vasa. Þetta fyrirkomulag getur hæglega falið í sér réttindabrot. Þess vegna var í fyrra sett á löggjöf um ábyrgð fyrirtækja sem versla við starfsmannaleigur, lög um keðjuábyrgð.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Markmið þeirra laga er að tryggja að laun og önnur starfskjör séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og kjarasamninga. Fyrirtæki sem leigja fólk af starfsmannaleigum bera samkvæmt lögunum „óskipta ábyrgð“ á vangoldnum lágmarkslaunum sem og öðrum starfskjörum.

Hugmyndin á bak við þetta er einföld. Þegar fyrirtæki hefur tuttugu manns í vinnu á eðlilegum kjörum, en kaupir fjóra frá starfsmannaleigu, þá er hvorki eðlilegt né réttlátt að sumir starfsmenn fái borgað í peningum og búi í venjulegu húsi, á meðan aðrir búa í iðnaðarhúsnæði á vegum yfirmannsins og sjá bróðurpart launa sinna hverfa í frádrátt, án þess að kvittanir séu lagðar til grundvallar. Nokkrir liðir þess frádráttar voru þess utan hreint og beint okur, eins og sú svimandi háa húsaleiga sem var greidd fyrir ólögleg híbýli starfsfólksins.

Það á að heita liðin tíð að fólk fái borgað fyrir vinnu í úttektum. Árið 1902 var deilt um þetta mál á þingi, en þannig náðu yfirmenn að féfletta verkafólk í fjórgang:

„1. Þeir nutu hagnaðar af vinnunni. 2. Þeir högnuðust á sölu vörunnar. 3. Vara sem tekin var út í reikning var dýrari en ef hún var staðgreidd. 4. Skuldunautar voru nokkur trygging fyrir vinnuafli þegar þörf var á og jafnframt dró þessi skipun mála úr líkum á deilum um kaup og kjör.“
Úr bók Þorleifs Friðrikssonar, Við brún nýs dags

Allt þetta er tilfellið í málinu gegn Mönnum í vinnu, og það er í raun ótrúlegt að Samtök atvinnulífsins vilji nú, hundrað og sautján árum síðar, taka þennan slag upp á nýtt. Tilgangur þeirra er skýr. Með slíkum aðferðum má hratt grafa undan þeirri vernd sem verkafólk hefur áunnið sér með áratugalangri baráttu.

Þeir sem segja, líkt og framkvæmdastjóri Eldum rétt, að mennirnir hafi samið af sér þessa sjálfsögðu vernd, eru að líta framhjá augljósum vanda — svo augljósum að á hann var bent þegar árið 1902. Skúli Thoroddsen sagði þá að það væri tæplega samningafrelsi þegar saman kæmu annars vegar „atvinnuþurfandi fátæklingar, en hins vegar auðugir vinnuveitendur. Þar komast ekki að frjálsir samningar, heldur nauðungarsamningar.“ Þetta á við svo um munar í tilfellum erlendra verkamanna sem er haldið í einangrun af óprúttnum starfsmannaleigum.

Af þessu má vera ljóst að talsmaður Samtaka atvinnulífsins fer fram með rangt mál og skaðlegar hugmyndir. Aðbúnaður verkafólks á að vera varinn án þess að bakdyr séu skildar eftir opnar fyrir réttindabrot og mismunun. Hugmyndafræði nítjándu aldar á ekki að skilgreina vinnumarkað okkar tíma.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: