- Advertisement -

Vandi Alþingis

Gölluð hugmynd getur batnað við umræðu.

Ragnar Önundarson skrifar:

Umræða var rétt í þessu í morgunþætti Rásar 1 um vandan á Alþingi. Samstarfserfiðleikana, virðingu þingsins osfrv. Forseti Alþingis ræddi vandann við þinglok í gær.

Flokka má vandamál í stjórnun í þrjá flokka:

  • 1) Rekstrarvanda
  • 2) Skipulagsvanda
  • 3) Stefnumótunarvanda

Reksturinn, frá degi til dags, tekur nær allan tímann og fær næstum alla athyglina. Ef hjakkað er lengi í sama farinu, eins og landsmálapólitíkin gerir núna, þá er tímabært að hugsa um vandann sem skipulagsvanda. Næstum alltaf virkar þetta, en einstaka sinnum þarf að líta á stefnumótunina, skilgreina hlutverk að nýju og móta stefnu út frá því, breyta skipulagi til samræmis osfrv.

Vandi Alþingis er skipulagsvandi. Við tölum af gömlum vana jákvætt um þingræðið. Það leysti konungsveldið af hólmi fyrir einni og hálfri öld síðan. Það felur hins vegar í sér mikla árekstra með blöndun löggjafarvalds, framkvæmdavalds og valdstjórnarinnar (dómstóla, saksóknar, lögreglu osfrv). Þingmenn atast í framkvæmdavaldinu, sem á móti valtar yfir löggjafarsamkomuna. Valdstjórnin gengur sjálfala. Reiði kjörinna fulltrúa á aldrei að sjást eða heyrast opinberlega, því hinn reiði missir alltaf traust.

Við þessu þarf að bregðast með tvennum hætti:

  • a) Með því að kjósa til allra þessara meginstoða lýðræðis- og réttarríkisins með beinum hætti, td. 19 í Framkvæmdaráð, þar sem mynduð er ríkisstjórn og minnihlutinn veitir aðhald, td. 11 í Valdstjórnarráð og loks 33 til löggjafarsamkomunnar. Sameinað þing þessara 63 fulltrúa komi saman öðru hvoru til að staðfesta lög og breyta stjórnarskrá með jákvæðri afgreiðslu fyrir og eftir kosningar.
  • b) Með því að beita þjóðaratkvæðagreiðslu oftar og nógu oft til að ekki gangi allir af göflunum í hvert sinn. Þessu mætti koma fyrir sem stuðningi við meginstoðirnar þrjár, þannig að mál gengju aftur til viðkomandi stoðar til lokafrágangs, í ljósi þjóðarviljans. Í Sviss er ríkjandi ævagömul hefð í þessa veru og mun hún vera samstofna fyrirkomulaginu á Alþingi hinu forna.

Þessar hugmyndir mínar munu auðvitað hljóta misjafnar undirtektir, það er eðlilegt. Gölluð hugmynd getur batnað við umræðu eða vakið aðra betri. Verst er tómlætið, það gerir ekkert gagn. Hættum að dásama „þingræðið“, það er ,,barn síns tíma” og má þróast áfram.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: