- Advertisement -

Smálán með allt að 3.000% ársvexti

„Starfsmenn samtakanna hafa þannig heyrt reynslusögur af fólki sem hefur lent í vítahring smálána og sumir hverjir hafa misst aleigu sína sem og leiguhúsnæði.“

„Faðir, hvers sonur festist í vef smálána, sýndi starfsmönnum yfirlit yfir smálán og vaxtagreiðslur þeirra. Sonurinn hefur á síðastliðnu rúmu ári tekið liðlega 100 smálán, samtals að upphæð 1,9 milljónir króna, mörg til að greiða upp önnur smálán. Lánin voru öll veitt í 15-30 daga. Samtals hafa fyrirtækin heimtað um 525 þúsund krónur í vexti. Útreikningur Neytendasamtakanna sýna að samkvæmt lögum hefðu smálánafyrirtækin í mesta lagi mátt innheimta 60 þúsund króna í vexti. Vextir smálánafyrirtækjanna voru frá 1.500% til 3.000% á ársgrundvelli, en hámark leyfilegra vaxta samkvæmt lögum er 50% auk Seðlabankavaxta.  Þannig hefur félagsmaðurinn greitt um 465 þúsund krónur hærri vexti en leyfilegt hefði verið að innheimta. Hann gerir nú kröfu um endurgreiðslu þeirrar upphæðar og munu Neytendasamtökin aðstoða hann í þeirri umleitan.“

Þetta má lesa á vef Neytendasamtakanna, ns.is.

Þar segir að fjöldi fólks hafi leitað til Neytendasamtakanna og sagt farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við smálánafyrirtæki. „Starfsmenn samtakanna hafa þannig heyrt reynslusögur af fólki sem hefur lent í vítahring smálána og sumir hverjir hafa misst aleigu sína sem og leiguhúsnæði, þar sem ólöglega háar upphæðir hafa verið teknar af bankareikningum þess. Má með sanni segja að smálánafarganið stappi nærri faraldri og algerlega óviðunandi að þessi ólöglega starfsemin fái þrifist.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Neytendasamtökin hvetja alla sem hafa tekið smálán að gera þá sjálfsögðu kröfu að fyrirtækin láti þeim í té yfirlit yfir lánsupphæðir, lánstíma og fjárhæð sem greidd hefur verið. Það er mat Neytendasamtakanna að ekki megi innheimta kröfur sem bera ólöglega vexti og munu samtökin halda áfram að berjast fyrir félagsmenn sína til að ná fram rétti sínum.

Þá beina Neytendasamtökin þeim tilmælum sínum til allra ábyrgra fyrirtækja að aðstoða ekki ólögleg smálánafyrirtæki á nokkurn hátt, hvort sem það er með því að selja þeim auglýsingar, sinna greiðslumiðlun þeirra, innheimtu eða á annan hátt geri þeim kleift að halda áfram starfsemi sinni. Það er einungis með aðstoð eða grandvaraleysi venjulegra fyrirtækja sem þessi starfsemi þrífst.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: