- Advertisement -

Verðbólga enn við markmið Seðlabankans

Efnahagsmál Verðbólga í júlí mældist rétt undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, og er júlí sjötti mánuðurinn í röð sem það er uppi á teningnum. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar lækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,17% í júlímánuði. Mælingin var í samræmi við spá okkar um 0,2% lækkun, en opinberar spár hljóðuðu upp á lækkun á bilinu 0,2% – 0,4%. Líkt og jafnan í júlí vógu útsöluáhrif þungt til lækkunar, en mikil hækkun á flugfargjöldum til útlanda, ásamt hækkun á eldsneyti, símaþjónustu og veitugjöldum, lagðist á hækkunarhliðina að þessu sinni. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka.

isb1Útsöluáhrif til lækkunar

Sumarútsölur eru nú í algleymingi og telst okkur til að þær hafi vegið til 0,6% lækkunar VNV í júlí. Stærstur hluti þessara áhrifa er vegna nærri 12% lækkunar á fötum og skóm, en einnig lækkaði verð á húsgögnum, heimilisbúnaði og tómstundavörum nokkuð í júlímánuði. Þessi áhrif ganga svo til baka í VNV með útsölulokum í ágúst og september.

Ferðakostnaður hækkar..

Þú gætir haft áhuga á þessum

Óhætt er að segja að kostnaður við ferðir og flutninga hafi vegið talsvert þyngra í buddum landsmanna í júlí en fyrr á árinu. Sá undirliður hækkaði um 2,1% í júlí (0,33% áhrif í VNV), og kemur sú hækkun á hæla 1,5% hækkunar í maí. Stærstur hluti hækkunarinnar í júlí er til kominn vegna 17% hækkunar á flugfargjöldum til útlanda, en slík fargjöld hafa samtals hækkað um nærri 30% frá maí síðastliðnum. Þá hækkaði eldsneytisverð um 1,4% í júlímánuði, og má skrifa þá hækkun að mestu á hækkun heimsmarkaðsverðs vegna óróa í Úkraínu og Mið-Austurlöndum.

isb2..sem og veitugjöld, sími og læknaþjónusta

Húsnæðisliður VNV hækkaði um 0,2% í júlí (0,05% í VNV). Raunar stóð reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu markaðsverð íbúðarhúsnæðis, í stað í mánuðinum. Tæplega prósentu hækkun gjaldskráa fyrir heitt vatn og rafmagn hafði hins vegar áhrif til 0,03% hækkunar VNV, auk þess sem greidd húsaleiga hækkaði um 0,35% í mánuðinum.

Af öðrum liðum sem höfðu talsverð hækkunaráhrif í júlí má nefna að verð á símaþjónustu hækkaði 2,3% (0,06% í VNV) og gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu hækkuðu um 1,2% (0,03% í VNV). Hins vegar lækkaði verð hótela og veitingastaða um 0,4% (-0,02% í VNV) og verð á áfengi og tóbaki um 0,2% (-0,01% í VNV). Þá stóð verð á mat- og drykkjarvörum nánast í stað.

isb3Verðbólga áfram við markmið

Horfur eru á svipaðri verðbólgu næstu mánuði. Þó gætiVNV hækkað eitthvað minna í ágúst en bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir. Eldsneytisverð hefur þegar lækkað um tæplega 1% frá júlímælingu VNV, og líkur eru á talsverðri lækkun flugfargjalda eftir nærri 30% hækkun samanlagt í júní og júlí. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á að VNV hækki um 0,4% í ágúst, 0,4% í september og 0,1% í október. Ef spáin gengur eftir verður verðbólga 2,6% í októbermánuði og 2,4% að jafnaði á seinni helmingi ársins. Til samanburðar má nefna að Seðlabankinn spáði í sinni nýjustu verðbólguspá að verðbólga myndi að jafnaði reynast 2,6% á seinni hluta ársins, og eru verðbólguhorfur að okkar mati því lítið eitt betri en bankinn gerði ráð fyrir í maímánuði.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: