- Advertisement -

Andmælum öllum skattatillögum Sjálfstæðisflokksins

Erfðafjárskattur var mikið lækkaður á nýfrjálshyggjuárunum eins og aðrir skattar á hin ríku.

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Efri mörk erfðafjárskatts eru 10% á Íslandi, 15% í Danmörku, 19% í Finnlandi, 20% í Hollandi, 30% í Þýskalandi og Belgíu, 40% í Bandaríkjunum og Bretlandi og 45% í Frakklandi. Erfðafjárskattur var mikið lækkaður á nýfrjálshyggjuárunum eins og aðrir skattar á hin ríku, fyrirtækja- og fjármagnseigendur. Í sumum löndum var erfðafjárskattur lagður af, eins og t.d. í Noregi og Svíþjóð.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Íslendingar hafa enn ekki gengið svo langt þótt þeir hafi lagt af eignaskatta, sem ásamt erfðafjárskatti, fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti fyrirtækja er helsta vopnið til að vega upp á móti eðli kapítalismans, sem flytur linnulaust fé frá þeim sem lítið sem ekkert eiga til þeirra sem eiga mikið og eignast sífellt meira. Um 1990 var tekjuskattur fyrirtækja 50% en er nú aðeins 20% þrátt fyrir hækkun strax eftir Hrun. Eignaskattar einstaklinga voru um 1,45% þegar þeir voru lagðir niður og 1,6% á fyrirtæki. Thomas Piketty hefur lagt til 2,5% eignaskatta til að vega upp óréttlæti kapítalismans. Fjármagnstekjur voru skattlagðar eins og launatekjur og hæstu fjármagnstekjur bæru rúmlega 46% skatta í dag, en raunskattur þeirra er aðeins 20%. Efsta þrep erfðafjárskatts var 45% en er í dag aðeins 10%. Þessar skattabreytingar á nýfrjálshyggjuárunum léttu um 80 til 100 milljörðum króna skattbyrði árlega af fjármagns- og fyrirtækjaeigendum.

Það var aldrei útskýrt hvernig ætti að bregðast við þessu tekjutapi en reynslan sýnir að afleiðingar skattalækkana til hinna ríku séu:

  • 1. Auknar skuldir hins opinbera og takmarkandi reglur um opinber fjármál í kjölfarið.
  • 2. Aukin skattbyrði á almenning, einkum á fólk með lágar tekjur og lægri meðaltekjur.
  • 3. Niðurskurður opinberrar þjónustu.
  • 4. Gjaldtaka innan heilbrigðis-, mennta- og annarra velferðarkerfa.
  •  5. Sala eigna og auðlinda almennings til að auka tekjur og lækka skuldir hins opinbera.

Þótt þessi tillaga Sjálfstæðisflokksfólksins sé ekki veigamikil breyting á skattalögum hefur eyðilegging þess flokks á tekjuöflunarkerfum hins opinbera slík og skaðinn svo stórkostlegur að það við ættum að setja okkur þá reglu að andmæla öllum tillögum hans í skattamálum það sem eftir lifir af öldinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: