- Advertisement -

„Hvert er versta orðið sem mér er heimilt að nota í pontu?“

Orðið laupur var notað um slaka menn.

Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati tók þátt í þingumræðu um fríverslunarsamning milli Íslands og Filippseyja. Helgi Hrafn er ekki sáttur, þó hann sé almennt sáttur við fríverslunarsamninga. Hann vildi nota stór orð og snéri sér til forseta þingsins, Steingríms J. Sigfússonar.

Helgi Hrafn: „Það er slæmur brandari, virðulegur forseti, að fullgilda þetta með Duterte við völd á Filippseyjum. Þegar ég hef ætlað að tala um hrotta og ómenni eins og Duterte eða Donald Trump eða Bolsonaro, sem eru allir hrottar og … hérna lendi í þeim vanda að ég þarf eiginlega að spyrja virðulegan forseta: Hvert er versta orðið sem mér er heimilt að nota í pontu? Ég ætla nú ekki að biðja virðulegan forseta af neinni alvöru að svara því vegna þess að ég veit að það er matsatriði sem virðulegan forseta langar kannski ekki að fara í akkúrat núna. Ég ber virðingu fyrir því. En mig vantar nógu slæm orð til að lýsa því hvers konar manneskjur við erum að tala um þegar við tölum um Duterte og álíka gaura. Fyrir merkilega tilviljun eru þetta allt gaurar. Hafið þið tekið eftir því?“

Steingrímur J: „Forseti hlýtur að segja að hann telur að þau orð sem háttvirtur þingmaður viðhafði um þjóðhöfðingja erlendra ríkja hafi verið á mörkunum að vera viðeigandi. Fyrst háttvirtur þingmaður bað um leiðsögn frá forseta um hvað væri við hæfi í þeim efnum verður forseti að hugsa til þess að í hans barndómi var notað gamalt íslenskt heiti á slaka menn, orðið laupur. Það mætti reyna að þýða það.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: