- Advertisement -

Áfengi í verslanir: Stjórnast eingöngu af gróðasjónarmiðum

Silja Dögg Gunnarsdóttir Framsóknarflokki er ekki par hrifin af frumvarpi Þorsteins Víglundssonar um að heimilt verði að selja áfengi í almennum verslunum.

„Augljóst er að hér er eingöngu um gróðasjónarmið verslunarinnar að ræða, ekkert annað. Við erum með gott kerfi sem engin ástæða er til að breyta þar sem kostirnir við breytingar eru engir, aðeins stórkostlegir gallar, eins og þetta liggur fyrir,“ sagði Silja Dögg.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem frumvarp þessa eðlis er lagt fram á Alþingi.

„Segja má að málið sé orðið klassískt. Það gerir það hins vegar ekki betra, þvert á móti. Það er jafn slæmt og það var þegar það kom fyrst fram þó svo að ýmsar breytingar hafi verið gerðar á því. Rökin gegn því eru og verða þau sömu,“ sagði Silja Dögg.

Silja Dögg hikar ekki við að segja að hér sé unnið að sérhagsmunum á kostnað almannahagsmuna.

„Það er því alveg augljóst að með framlagningu þessa frumvarps er ekki verið að gæta hagsmuna almennings í landinu, hvorki hvað varðar heilsufarsleg og félagsleg áhrif, ef leyft verður, né hvað varðar þjónustu við íbúa vítt og breitt um landið. Ég kem í raun ekki auga á einn einasta kost við þessa lagabreytingu nema þá helst að veita eigi aukið fé til forvarna. Eins og áður sagði er gallinn við það að slík ráðstöfun hefur sáralítil áhrif hvað varðar neysluna.“

Hér má lesa ræðu Silju Daggar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: