- Advertisement -

Enn og aftur að vanda Sjálfstæðisflokks

Þar kom einn af þáverandi ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Sá settist við hlið mér og sagði: „Sigurjón, hvar er Mogginn“?

Sigurjón Magnús Egilsson skrifar:

Eftir að hafa fylgst með íslenskum stjórnmálum í áratugi rifjast ekkert upp sem nálgast þau opinberu átök sem nú eru í Sjálfstæðisflokki. Þar á bæ hefur fólk einatt staðið þétt að baki forystu flokksins. En ekki nú.

Mestu munar þar um Davíð Oddsson. Hann sá til, og naut, þess að forysta flokksins var ekki gagnrýnd. Hvorki út á við eða á fundum innan flokksins. Ósáttir þögðu. Nú er öldin önnur. Davíð fer fyrir stjórnarandstöðunni í Sjálfstæðisflokknum. Þögnin hefur verið afnumin. Mogginn er vettvangur ósáttra Sjálfstæðismanna, sem flestir virðast vera komnir nokkuð við aldur. Kynslóð Davíðs.

Davíð Oddsson.
„Hin gjöf­in verður kannski rædd síðar.“

Í leiðara í dag skrifar Davíð: „Það er mikið um­hugs­un­ar­efni að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hafi ákveðið að gefa sjálf­um sér og stuðnings­mönn­un­um tvennt í 90 ára af­mæl­is­gjöf í þess­um mánuði. Það fyrra er að neyða at­lög­una að stjórn­ar­skránni niður um kokið á hvor­um tveggja með góðu eða illu og sanna að þar hafi menn ekk­ert lært af óför­un­um í Icesave. Samt segja þeir að málið sé ekki um neitt. Það sé ekk­ert í því. Það taki ekk­ert vald af Íslandi og færi ekk­ert vald yfir til ESB.“

Þarna býr mikil alvara að baki. Í haust verður níutíu ára afmælis Sjálfstæðisflokksins minnst. Í leiðaranum sagði Davíð: „„Það er mikið um­hugs­un­ar­efni að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hafi ákveðið að gefa sjálf­um sér og stuðnings­mönn­un­um tvennt í 90 ára af­mæl­is­gjöf í þess­um mánuði.“ En hvað er þá hitt? Það er sveipa dulúð: „Hin gjöf­in verður kannski rædd síðar,“ skrifar formaðurinn fyrrverandi.

Snemma eftir að Davíð varð forsætisráðherra var vandi innan ríkisstjórnar hans. Ég sat einn í kringlu í Alþingishússins. Þar kom einn af þáverandi ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Sá settist við hlið mér og sagði: „Sigurjón, hvar er Mogginn“?

Síðan sagði hann mér það dæmigert að þegar Sjálfstæðisflokkurinn ætti í vanda færi Mogginn. Hætti að fylgjast með. Segði ekkert. Gerði ekkert.

Nú er öldin önnur. Nú er Mogganum beitt gegn forystu flokksins. Hins vegar má spyrja núna, hvar eru allir hinir fjölmiðlarnir? Það er ekki eins og innanflokksátökin séu eitthvert leyndarmál.

En hvað er það sem veldur átökunum innan Sjálfstæðisflokksins? Þriðji orkupakkinn? Já, að hluta. Fleira kemur til. Að hætti Davíðs er best að enda þessi skrif með því að segja. Hinar ástæðurnar verða kannski ræddar síðar. 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: