- Advertisement -

Þakkaði Katrínu rýr svör


Á enn einu sinni að nota krónu á móti krónu umhverfið til að sleppa við að veita þeim þær hækkanir sem almenningur er að fá núna og var samið um í síðustu kjarasamningum?

„Ég þakka hæstvirtum forsætisráðherra rýr svör,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson þegar hann hafði hlýtt á svör Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Guðmundur Ingi spurði um kjör öryrkja í framhaldi af samningum á vinnumarkaði.

„Nú er búið að gera nýjan kjarasamning um launamál. Þar er um krónutöluhækkanir að ræða. Þess vegna langar mig að fá svar frá hæstvirtan ráðherra, skýlaust svar: Munu öryrkjar fá sömu krónutöluhækkanir frá 1. apríl í ár og samið var um á vinnumarkaði?“

Katrín svaraði ekki beint en benti á starfshóp, þar sem Guðmundur Ingi er innanborðs og sagðist vænta þess að niðurstaða úr þeirri vinnu væri væntanleg.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Katrín:
Hér er búið að eyrnamerkja á þessu ári 2,9 milljarða í kjarabætur handa öryrkjum.

„Hér er búið að eyrnamerkja á þessu ári 2,9 milljarða í kjarabætur handa öryrkjum. Það er ýmislegt hægt að gera við slíka fjármuni, hvort sem er til að draga úr vægi krónu á móti krónu skerðingar, horfa á framfærsluna eða auka hlutfall sveigjanlegra starfa handa öryrkjum. Ég vonast svo sannarlega til þess að við fáum að sjá það sem þessi hópur hefur verið að vinna með og að hægt verði að taka ákvarðanir sem þjóna því markmiði að gera jákvæðar breytingar til framtíðar til að bæta kjör öryrkja,“ sagði Katrín.

„Króna á móti krónu skerðingar eru bara allt annar hlutur en kauphækkanir á almennum vinnumarkaði. Það er greinilegt að öryrkjar eiga ekki að fá frá 1. apríl. Þá spyr ég: Eiga þeir að fá frá 1. janúar afturvirkt eða á að beita enn einu sinni sömu brellunum á þá og sjá til þess að þeir fái ekki kauphækkanir eins og allir aðrir? Á enn einu sinni að nota krónu á móti krónu umhverfið til að sleppa við að veita þeim þær hækkanir sem almenningur er að fá núna og var samið um í síðustu kjarasamningum? Þetta eru tveir ólíkir hlutir,“ sagði Guðmundir Ingi.

„Spurningin er: Fá öryrkjar umsamdar hækkanir, krónutölurnar, eins og var samið um á almenna markaðnum, frá 1. apríl eða fá þeir það ekki? Fá þeir þær frá 1. janúar? Ef það er frá 1. janúar á næsta ári, fá þeir þá afturvirkt þannig að þeir sitji við sama borð og allir aðrir sem hafa fengið hækkanir?“

Katrín lét ógert að svara þessum spurningum þingmansnins.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: