- Advertisement -

Nú er ekkert nema helvítis helgin

Og svo ægileg helgi yfir einhverju sem ekkert er.

Gunnar Smári skrifar:

Við mamma rifjuðum upp sögur frá þessu svæði; sjoppuna, bátaleiguna, Þingvallamurtuna á matseðli Valhallar, pönnukökurnar og súkkulaðið…

Í bíltúr okkar mömmu og Sóleyjar um páskana rendum við inn á planið fyrir utan Valhöll, sem engin er lengur á Þingvöllum. Við mamma rifjuðum upp sögur frá þessu svæði; sjoppuna, bátaleiguna, Þingvallamurtuna á matseðli Valhallar, pönnukökurnar og súkkulaðið, brúðkaup í vornóttinni, Hauk pressara og Lalla í Pólunum, drengi sem stálust í bátana, fulla karla sem misstu árarnar og flutu með straum árinnar út á vatnið, grenjandi börn, Hótel hjartabrot og alls konar mannlíf sem eitt sinn var á þessum bletti. Nú er þarna ekkert annað en helvítis helgin sem hefur lagst yfir allt á vorum trúlausu tímum; meira að segja fógetagarðinn. Ég veit ekki með þessa helgi, oft virkar hún bara sem samfélagslegt þunglyndiseinkenni, eins og öll þessi koxgráu hús sem hafa verið byggð í ímynduðum góðærum liðinna ára; á tímum þegar við teljum okkur trú um að við getum allt hverfa litirnir. 

Þú gætir haft áhuga á þessum
Það voru ekki byggðir verkamannabústaðir á hafnarbakkanum í Reykjavík.

Það voru ekki byggðir verkamannabústaðir á hafnarbakkanum í Reykjavík eða íbúðir fyrir Félag einstæðra foreldra heldur enn meira af þessu koxgráa þunglyndi hinna ríku, líflaus leiðindi sem er hrannað upp þar sem eitt sinn var útsýni. Og svo ægileg helgi yfir einhverju sem ekkert er. Við lifum skrítna tíma; samfélagið er ekki aðeins í fjárhagslegri upplausn undan ráni hinna ríku heldur er samfélagið í andlegri upplausn. Kannski er það rótin, andleg upplausn leiðir til félagslegrar upplausnar og efnahagslegt óréttlætis og undarlegra ákvarðana eða ákvarðanaleysis.

Hér er fín viðbót frá Gunnari Smára:

Ef ég væri samfélags-sálfræðingur (sem ég vissulega er) myndi ég segja að þessi gráa uppskrúfaða minimalíska helgi væri sjúkdómseinkenni farsóttar sem tók að herja á Vesturlönd eftir hinn litríka hippaáratug, síðast þegar allt var mögulegt í okkar menningu og vonin var enn leiðarljós, ekki ógnin og óttinn. Litskrúðug gleði sjöunda áratugarins kafnaði í efnahagslegum ógöngum eftirstríðsárahagkerfisins í kjölfar olíukreppunnar, tvístrun mannréttindabaráttunnar, ofbeldinu sem stjórnvöld vestan hafs og austan beittu þeim sem kröfðust réttlætis og mannúðar og svo framvegis (ég fer ekki nánar út í endalok vonarinnar í vestrænni menningu, það er efni í of langan texta fyrir Facebook). 

Vonbrigðin með pólitískar og félagslegar breytingar birtist í nýöldinni og slagorði hennar: Eina leiðin til að breyta heiminum er að breyta sjálfum sér. Sem er öfugmæli því eina leiðin til að breyta sjálfum sér er að breyta heiminum, annars ertu ekki að gera annað en að aðlaga þig að heiminum eða finna leið til að lifa við óréttlæti hans og andstyggð. Þannig birtist iðkun andlegrar einstaklingshyggju í dag; eina leiðin til að lifa af samfélag manna er að geta kúplað sig reglulega út úr því; samfélagið er ófrjótt og endurnýjar ekki fólk heldur verður það komast burt, helst upp á Langjökul í algjörra kyrrð til að geta svo lifað barbarismann í samfélaginu kannski eina til tvær vikur til viðbótar. 

Nýöldin var andlegur upptaktur að nýfrjálshyggjunni: Eina leiðin til að byggja upp réttlát samfélag er að hver hugsi aðeins um rassgatið á sjálfum sér, höfnun á því að nokkur gæti gætt hagsmuna annars, upphafning verðleika einstaklinganna (hinn ríki er ríkur fyrir eigin verðleika, hinn fátæki fátækur vegna skorts á verðleikum), tignun leiðtoga og frumkvöðla en blinda fyrir því að afrek sín fremur mannskepnan sem hópdýr í félagi með öðrum, niðurbrot samkenndar, samlíðan og mannúðar. Við lifum nú endalok þessara grimmu trúar; hún er dauð, líkið er daunillt en við höfum ekki enn fundið nógu ríka von til að fjarlægja það. Tignum það enn. Og rotnandi stækjan dregur burt lit og líf úr menningunni og mannlífinu, við dröttumst áfram niður dimman veg, svipt von um að við getum nokkuð annað, sannfærð um að við verðum að fóðra dýrið þótt það sé löngu dautt. Það er ekki vegna samfélagsmiðla sem unga fólkinu okkar líður illa, það er ekkert nema gleði og fjör að geta átt í samskiptum við fjölda manns á sama augnabliki. Eins og sambland af samkvæmi og flugeldasýningu. En það er óbærileg áþján innan grimmrar einstaklingshyggju. Það er ekki tæknin sem er drepa okkur; það er einstaklingshyggjan sem notar tæknina og öll önnur tól sem hún finnur til að drepa okkur. Eina leiðin til að bjarga börnunum okkar er jafnframt eina leiðin til að bjarga samfélaginu okkar, náttúrunni og framtíð barnanna okkar. Það er leið samkenndar, samúðar og samvinnu; oftast kölluð sósíalismi. Þannig er nú það.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: