Snýst um þjáningar – ekki um stjórnmál
Það hefði verið hægt að gera aðgerð á 38 sjúklingum hér heima fyrir þann kostnað sem greiddur hefur verið erlendis fyrir 25 manns.
„Ég kaus einkavætt sjúkrahús, Capio Moment í Halmstad í Svíþjóð. Rekstrarformið er í mínum augum aukaatriði,“ skrifar Ísólfur Gylfi Pálmason, fyrrverandi þingmaður og sveitastjóri í grein sem birt er í Mogganum í dag.
Ísólfur hafði beðið lengi, þjáður af verkjum, eftir mjaðmaaðgerð.
„Þar var fyrirmyndarþjónusta og undirbúningur afar faglegur. Aðgerðin var gerð í ágúst á síðasta ári. Sjúkrasjóður Íslands greiddi nær allan kostnað en heildarkostnaður vegna þeirra 25 einstaklinga sem nýttu sér þessa leið á síðasta ári nam um 45 milljónum króna. Ljóst er að Landspítalinn hefur hvorki fjármagn eða aðstæður til þess að taka verulega til hendinni til að létta á biðlistanum,“ skrifar hann.
Á þrekhjóli með sænska mjöðm
„Ég fékk þó símtal seinnipartinn í febrúar þar sem ég var boðaður með litlum fyrirvara í aðgerð á Landsspítalanum. Þá sat ég á þrekhjóli í líkamsræktinni með sænska mjöðm sem ég segi gjarnan í gríni að sé frá Volvo. Sá næsti á biðlistanum hefur þá komist aðeins fyrr í aðgerð í minn stað. Bæklunarlæknirinn Hjálmar Þorsteinsson hjá Klínikinni, sem er fyrrverandi yfirlæknir á Capio Moment-sjúkrahúsinu, benti mér á þessa leið. Það hefði verið hægt að gera aðgerð á 38 sjúklingum hér heima fyrir þann kostnað sem greiddur hefur verið erlendis fyrir 25 manns.“
Ísólfur Gylfi segir Klínikina í Ármúla hafa boðið fram aðstoð sína til að stytta biðlistana. „Þar starfar fagfólk og margir Íslendingar hafa keypt sér þjónustu þar og greitt sjálfir fyrir aðgerð. Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki haft áhuga á að gera samning við fyrirtækið – þess í stað þykir betra að senda sjúklinga til Evrópulanda. Það er mikil mismunun fólgin í þessu og á skjön við jafnréttislög. Heilbrigðisráðherra segir í Morgunblaðinu 15. apríl sl. að þetta sé: „Fyrst og fremst vegna þess að þetta eru aðskilin kerfi.“ Það má velta því fyrir sér hvort einkasjúkrahús erlendis séu þá ekki í „aðskildu kerfi“.“
Fólk er bryðjandi verkjalyf frá morgni til kvölds
„Svo ég víki mér aftur að sænsku mjöðminni þá tókst aðgerðin á mér fullkomlega. Það er óneitanlega mikil fyrirhöfn og ákveðin áhætta að þurfa að fara alla þessa leið til þess að fá bót meina sinna. Í rauninni óskiljanlegur óþarfi. Ég hef áður ritað grein um þetta mál í Morgunblaðið til þess að lýsa mikilli undrun minni á því hvernig kerfið virkar. Ótrúlega margir höfðu samband eftir birtingu greinarinnar og sögðu farir sínar ekki sléttar og hafa beðið lengi eftir því að fá bót meina sinna.
Þrír heilbrigðisráðherrar hafa ekki treyst sér til þess að taka á þessum málum, allt vel hugsandi fólk, í þremur mismunandi stjórnmálaflokkum. Ég treysti núverandi heilbrigðisráðherra vel, veit að hún er vel meinandi og vill gera vel og að mínu mati löngu tímabært að gera samninga við Klínikina þannig að sárþjáð fólk, bryðjandi verkjalyf frá morgni til kvölds, fái „viðgerð“ og verði nýtir þjóðfélagsþegnar á ný. Fjármálaráðherra heldur um pyngjuna og er mun hlynntari einkavæðingu en ég. Hins vegar snýst þetta ekki um pólitík heldur fyrst og fremst um lausn fyrir sárþjáð fólk sem á þá ósk heitasta að verða nýtir þjóðfélagsþegnar á ný. Nú reynir enn á ríkisstjórnina. Fyrir alla muni frestið þriðja orkupakkanum og virkið orku þeirra þúsund Íslendinga sem óska þess heitast að geta nýtt þá orku sem í þeim býr.“