Samfélag Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra undirritaði í dag samstarfssamning sem felur í sér rannsókn á kjörsókn í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru þann 31. maí síðastliðinn. Rannsóknin er samstarfsverkefni innanríkisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands og doktorsnema við Háskólann í Mannheim.
Rannsóknin miðar að því að kanna ástæður fyrir minnkandi kjörsókn en sem kunnugt er var kjörsókn í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum minni en hún hefur nokkru sinni verið í lýðveldissögunni. Á landinu öllu var heildarkjörsókn 65,9% og í stærstu sveitarfélögum landsins, Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, var hún alls staðar undir 63%. Í kosningunum 2010 hafði kjörsókn minnkað mikið frá því í kosningunum áður eða frá 78,7% árið 2006 niður í 73,5%.
Leitað verður svara við þeim spurningum af hverju kjósendur tóku þátt eða tóku ekki þátt, hvaða áhrif það hafði og hvernig hægt væri að bregðast við því. Spurt verður um þátttöku í sveitarstjórnar-kosningunum og aðra vel þekkta þætti sem tengjast kjörsókn. Til dæmis verður spurt um kosningaþátttöku og ef það hefði kosið hvaða flokk það hefði þá kosið, hversu mikið það varð vart við kosningarnar/kosningabaráttuna, aldur, áhuga á stjórnmálum, hvað gæti aukið áhuga þeirra á því að kjósa, tengingu við stjórnmálaflokka og flokkshollustu, félagslega stöðu og fleira.
Miðað er við að rannsókninni verði lokið í september/október.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra:
„Rétturinn til að kjósa er mikilvægur þáttur í lýðræðissamfélagi og það er áhyggjuefni ef færri kjósendur nýta sér þennan rétt. Við teljum rétt að láta kanna ástæður þess og við vonum að þessi rannsókn varpi ljósi á það. Í framhaldinu munum við, ásamt fjölmörgum öðrum aðilum, ræða með uppbyggilegum og jákvæðum hætti lausnir og leiðir til að tryggja áfram öfluga þátttöku í kosningum á Íslandi.“