- Advertisement -

Leika lægri vextir heimilin virkilega illa?

Vilhjálmur er gáttaður á orðum formanns bankaráðsins.

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Hvað er eiginlega að hjá þessu ágæta fólki. Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, segir að það sé misskilningur að lækkun vaxta komi heimilunum til góða og galið að takmarka lánstíma verðtryggðra lána, Telur Gylfi misskilning fólginn í því að telja að vaxtalækkun færi heimilunum mikinn ávinning þar sem heimilin eru einnig eigendur vaxtaberandi eigna.

Að hugsa sér að Gylfi Magnússon formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og umsækjandi um að verða Seðlabankastjóri skuli halda því fram að okurvextir sem heimilin þurfa að þola séu byggðir á misskilningi og að vaxtalækkun komi heimilunum ekki til góða því heimilin séu „eigendur“ vaxtaberandi eigna! Hvað er maðurinn að eiginlega að tala um að það sé bara eðlilegt að íslensk heimili séu að greiða 3 til 3,5% hærri raunvexti en neytendur á Norðurlöndunum.

Það liggur einnig fyrir sérfræðiálit um að 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán séu baneitraður kokteill sem verði að banna, enda gera þessi lán ekkert annað en að hækka fyrstu 25 árin af samningstímanum! Nei, það vill Gylfi Magnússon alls ekki því nauðsynlegt er að halda áfram að bjóða upp á baneitraða kokteila sem byggjast upp á að sjúga allt fé frá varnarlausu lágtekjufólki.

Allt byggt á misskilningi því heimilin eigi svo mikið að „vaxtaberandi eignum“, er hann kannski tala um að blóðmjólka þurfi húsnæðiskaupendur í hverjum mánuði til að verja lífeyriskerfið?

Gerir þessi ágæti umsækjandi um að verða Seðlabankastjóri sér ekki grein fyrir því að af 30 milljóna húsnæðisláni þarf íslenskur almenningur að greiða allt að 100 þúsundum meira í vaxtakostnað miðað við neytendur á Norðurlöndunum í hverjum mánuði!

Eina sem vantar í þetta viðtal við Gylfa Magnússon er hann haldi því fram að við verðum Kúba norðursins ef tekið verður á okurvöxtum fjármálakerfisins og hagsmunir alþýðunnar og heimilanna verði teknir fram yfir hagsmuni fjármálaelítunnar!

Ég tel að hérna blasi við hvernig hluti af fræðasamfélaginu og embættismannakerfinu er tilbúið að berjast af alefli gegn kerfisbreytingum þar sem hagsmunir heimilanna verði teknir fram yfir hagsmuni fjármálakerfisins.

Mikilvægt að þetta ágæta fólki átti sig á því að tími kerfisbreytinga þar sem hagsmunir almennings verða hafðir að leiðarljósi er runninn upp, enda byggist lífskjarasamningurinn að stórum hluta á þeirri staðreynd!

Hér má lesa viðtal Moggans við Gylfa Magnússon:

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/04/07/satt_best_ad_segja_snargalid/?fbclid=IwAR2e8PVPpRR2moChxtnD8muL6eey0Cq1F6Ekoib0pPyEr8-dNvrhpgGemQA


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: