- Advertisement -

Skuggi hangir yfir ríkissjóði

Verður að telja þessa aðgerð, sem vitaskuld á sér alllanga sögu, vanhugsaða og rangláta.

Ólafur Ísleifsson talaði um sterka stöðu ríkissjóðs, í ræðustól Alþingis. Þó er ekki allt sem sýnist:

Ólafur Ísleifsson.

„Sá skuggi hangir einnig yfir hinni sterku stöðu ríkissjóðs að hún er keypt því verði að bætur almannatrygginga hafa ekki fylgt launaþróun, eins og margsinnis hefur verið bent á af hálfu talsmanna aldraðra og margra fleiri. Þá gerir það illt verra að fólki í þessari stöðu er gert erfitt um vik, svo ekki sé fastar að orði kveðið, hafi það vilja og getu til að bæta hag sinn með aukinni vinnu, því að þá taka við skerðingar á skerðingar ofan, gerðar af miklu hugviti og gengið eftir þeim af harðfylgi,“ sagði þingmaður Miðflokksins, Ólafur Ísleifsson.

„Svo dæmi sé tekið af frítekjumarkinu sem kveður á um skerðingar bóta vegna atvinnutekna tókst að fá ríkisstjórnina til að hækka markið upp í 100.000 kr., sem út af fyrir sig ber að þakka, úr þessum 25.000 kr. sem áður giltu. Sá sem hér stendur hefur margtalað fyrir því að þetta mark verði fellt niður með þeim rökum að slík aðgerð kosti ríkissjóð ekki neitt. Fyrir liggur greinargerð um það efni, vönduð að allri gerð, þar sem tekið er tillit til viðbótartekna ríkissjóðs af auknum tekjum og veltu. Hafa ekki verið bornar brigður á þá útreikninga — en kannski frekar látið eins og menn hafi ekki heyrt það sem sagt hefur verið um þetta.

Þá ber að geta hinnar alræmdu skerðingar bóta almannatrygginga vegna tekna á formi greiðslna úr lífeyrissjóði. Þetta fyrirkomulag gerir að engu lífeyrissparnað fólks sem greitt hefur um langan aldur og felur í sér eignaupptöku af ákveðnu tagi. Hér er átt við greiðslur af lágum tekjum. Þegar það á við stendur maður uppi með sömu tekjur og maður sem aldrei hefur greitt í lífeyrissjóð. Þessi háttur hefur grafið undan lífeyrissjóðunum, og þeir hafa fjallað um þetta á opinberum vettvangi, og rýrt tiltrú fólks á þeim. Verður að telja þessa aðgerð, sem vitaskuld á sér alllanga sögu, vanhugsaða og rangláta.“

Hér er ræða Ólafs.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: