- Advertisement -

Fimm hæða timburblokk

Viðarteningur gæti verið íslenskt heiti á fyrstu fimm hæða íbúðablokkinni í Hamborg í Þýskalandi sem reist er að mestu leyti úr trjáviði. Byggingin er kölluð Woodcube upp á ensku og er í laginu eins og teningur með svalir á þrjár hliðar, stendur innan um hefðbundnar hvítar nútímablokkir og vekur þar mikla athygli. Timburblokk þessi var sýnd á alþjóðlegu byggingasýningunni IBA 2013 í Hamborg. Húsið vakti verðskuldaða athygli og sýningargestir skoðuðu hana í krók og kring, spurðu margs, bönkuðu í veggi og fræddust um bygginguna og smíði hennar.

Þetta kemur fram á heimasíðu Skógræktar ríkisins, skogur.is.

Þar segir einnig: Timbrið í veggjum hússins er bæði einangrandi og veitir vörn gegn bruna, öfugt við það sem fólk gæti haldið í fyrstu. En það var ekki auðvelt að telja yfirvöldin á að veita byggingarleyfi fyrir svo háu húsi sem eingöngu væri gert úr timbri. „Við erum í Þýskalandi,“ segir Matthias Korff „og hér eru reglur um alla hluti“. Í reglunum hafi menn ekki fundið neitt um hvernig fara ætti með þrjátíu sentímetra þykka timburveggi. Og af því að tilheyrandi regluverk fannst ekki segist Korff hafa orðið að sýna fram á það sjálfur að öllu væri óhætt.

Í þýskum eldvarnarreglugerðum segir til dæmis að veggur skuli standast eld í hálfa aðra klukkustund við eldsvoða. Korff segir að timburveggir eins og eru í Woodcube-húsinu hafi reynst þola 1.000 stiga hita í rúmar fimm klukkustundir. En eldvarnaryfirvöld kröfðust þess líka að lyftuhúsið í byggingunni yrði gert úr steinsteypu og það var gert en í kjölfarið var sú ákvörðun endurskoðuð og nú hefur verið veitt leyfi fyrir því að þessi hluti sambærilegra húsa megi vera gerður úr timbri líka.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: