- Advertisement -

Er ætlun Icelandair að leggja WOW?

Ég vona svo sannarlega að WOW air lifi þetta af.

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Það skal alveg viðurkennast að maður er farinn að fá það sterklega á tilfinninguna að aðlir sem tengjast eða hafa tengst Icelandair Group hafi eitt markmið þessa daganna: Að reyna allt til þess að koma í veg fyrir að forsvarsmönnum WOW air takist að endurreisa flugfélagið.

Af hverju segi ég þetta? Skoðum hvað þrír aðilar sem allir hafa gengt stöðu sem forstjórar Icelandair Group hafa sagt í fjölmiðlum á liðnum dögum um þann lífróður sem WOW air vinnur nú að við að bjarga flugfélaginu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Byrjum á Boga Nils Bogasyni núverandi forstjóra Icelandair Group en hann segir í viðtali við Fréttablaðið í dag orðrétt: „Af fréttum að dæma er fyrirtækið ekki gjaldfært og eigið fé verulega neikvætt. Það segir sig því sjálft að ótryggðar kröfur á félagið eru verðlausar. Að þeir sem leggja nýtt áhættufjármagn til félagsins á þessum tímapunkti eignist það ekki að fullu er erfitt að skilja,“ segir hann. Það sé jafnframt mun ódýrara að stofna nýtt flugfélag frá grunni með þennan fjölda leiguvéla sem talað sé um en nemur þeirri fjárhæð sem fréttir segja að félagið vanti. Að mínu mati væri því mun skynsamlegra að stofna nýtt félag fyrir mun lægri fjárhæð og eiga það að fullu.“ Þetta sagði Bogi Nils Bogason í Fréttablaðinu í morgun og ætlar einhver að halda því fram að málflutningur af þessu tagi hjálpi forsvarsmönnum WOW air?

Í lokin á þessu viðtali við Fréttablaðið segir Bogi Nils orðrétt: „En ég ítreka að ég vona að WOW air takist að leysa sín vandamál og verði í rekstri áfram,“ Yfir þessum orðum verð ég að segja að ég fæ algjöran kjánahroll, enda hef ég á tilfinningunni að ekki nokkur menning liggi á bak við þessi orð.

Björgólfur Jóhannesson.
„Til þess að fá flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu þurfi að uppfylla viss skilyrði sem vandséð sé að WOW air hafi gert lengi og sagðist vera hugsi yfir hlutverki eftirlitsaðila í flugrekstri á Íslandi og nefndi þar Isavia, sem er rekstraraðila allra flugvalla á Íslandi, sérstaklega.“

Skoðum hvað Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair group sagði um þann þann botnlausa lífróður sem forsvarsmenn WOW air eru í þessa daganna. En orðrétt sagði Björgólfur í viðtali í þættinum Ísland í bítið í gær:
„Til þess að fá flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu þurfi að uppfylla viss skilyrði sem vandséð sé að WOW air hafi gert lengi og sagðist vera hugsi yfir hlutverki eftirlitsaðila í flugrekstri á Íslandi og nefndi þar Isavia, sem er rekstraraðila allra flugvalla á Íslandi, sérstaklega.“

Á þessum ummælum verður ekki annað skilið en að fyrrverandi forstjóri Icelandair Group hafi verið nánast að kalla eftir að Samgöngustofa afturkallaði flugrekstrarleyfi WOW air og Isavia myndi kyrrsetja flugvélar WOW air vegna útistandandi skulda fyrirtækisins við Isavia.

Hann sagði einnig að svartsýnisspár vegna hugsanlegs gjaldþrots WOW séu ofmetinn. Getur verið að Björgólfur hafi með þessum orðum sínum um að afleiðingar af gjaldþroti WOW viljað hvetja Samgöngustofu og Isavia til að ráðast til atlögu gegn WOR air?
Ætlar einhver að halda því fram að þessi ummæli hafi verið hugsuð til að hjálpa forsvarsmönnum WOW air ? Nei fjandakornið!

Skoðum að lokum hvað Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group sagði um þann björgunarleiðangur sem forsvarsmenn WOW air eru í þessa daganna: 
„Ég hef efasemdir um að kröfuhafar WOW air, eins og flugvélaleigusalar, séu tilbúnir að breyta kröfum sínum yfir í hlutafé. Sú tilhugsun að þeir séu tilbúnir að breyta einhverju hlutafé er svolítið galin því að það er fordæmi sem þeir forðast eins og heitan eldinn.“
Það er með ólíkindum þegar maður skoðar þetta mál hvernig aðilar sem tengjast Icelandair Group hafa ítrekað reynt að leggja stein í götu forsvarsmanna WOW air við að bjarga flugfélaginu.

Á sama tíma og þessi skemmdarverkastarfsemi á sér stað neita fulltrúar Samtaka atvinnulífsins að leggja fram tölur í launaliðnum og hafa síðustu daga borið fyrir sig þá óvissu sem uppi er hvað framtíð flugfélagsins WOW air varðar.

Munum að Icelandair Group er aðili að Samtökum atvinnulífsins en ekki WOW air og það hljóta þá að vera hagsmunir þjóðarinnar að forsvarsmönnum WOW air takist að bjarga flugfélaginu og því spyr maður sig hvað gengur þessum aðilum til með þessum ummælum sínum?

Munum líka að almenningur hefur svo sannarlega notið þess að WOW air hafi komið inn á á þennan flugmarkað ekki bara með því að skerpa á samkeppnisstöðunni með lægri flugfargjöldum heldur hefur fyrirtækið einnig skapað fjölmörg störf og gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.

Ég vona svo sannarlega að WOW air lifi þetta af, íslenskum almenningi til hagsbóta og skora á aðila sem tengjast Icelandair Group að láta af þessari skemmdarverkastarfsemi á meðan forsvarsmenn WOW air berjast með kjafti og klóm við að bjarga flugfélaginu. Okkur öllum til hagsbóta!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: