- Advertisement -

Verkföllin nú eru mildari en áður

Nú eru komnir nýir stjórnendur í SA sem eru úti á túni.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Atvinnurekendur og talsmenn þeirra kvarta sáran yfir verkföllunum og kjarakröfum verkafólks. En verkföllin í dag eru barnaleikur miðað við það,sem áður var, þegar Guðmundur Jaki, formaður Dagsbrúnar stjórnaði.

Þá voru allsherjarverkföll og allt stöðvað og meira að segja fékkst ekki mjólk. Reynt var að smygla mjólk til borgarinnar en Guðmundur Jaki gerði sér lítið fyrir og hellti mjólkinni niður við bæjardyrnar. Hvað yrði sagt í dag, ef Sólveig Anna, formaður Eflingar, hellti niður mjólk eða eyðilegði önnur matvæli. Eitthvað mundi þá heyrast í þeim, sem nítt hafa Önnu Sólveigu sem mest niður.

Verkföllin í dag eru barnaleikur miðað við það,sem áður var, þegar Guðmundur Jaki, formaður Dagsbrúnar stjórnaði.

En samkvæmt hennar eigin lýsingu er það einstakt hvernig atvinnurekendur og talsmenn þeirra hafa lagt hana í einelti og hvernig þeir hafa talað um hana fyrir þær sakir einar að hafa barist fyrir betri launum fyrir þá lægst launuðu svo þeir gætu lifað.

Atvinnurekendur og talsmenn þeirra býsnast mikið yfir því hve verkföllin valdi miklum skaða fyrir þjóðarbúið! Halda þeir að verkföll séu einhver samkvæmisleikur? Verkföll eiga að valda tjóni. Verkföll eiga að bíta. Til þess er stofnað til þeirra.

Það þýðir ekkert að væla yfir verkföllunum. Það eina, sem unnt er að gera til þess að komast hjá þeim er að semja.

Atvinnurekendur áttuðu sig á þessu fyrir tæpum 4 árum: Þeir sömdu á síðustu stundu áður en verkfall skall á. En nú eru komnir nýir stjórnendur í SA sem eru úti á túni og virðast ekki skilja verkalýðsbaráttuna. Þeir berja hausnum við steininn og bjóða engar raunhæfar kjarabætur. Þeir meta það einskis ,að verkalýðshreyfingin hefur farið rólega af stað með verkfallsaðgerðir. Þeir virðast bíða eftir allsherjarverkfalli. Eina afsökun þeirra er sú, að ríkisstjórn vinstri foringjans KJ styður þá í gegnum þykkt og þunnt og hefur algerlega snúist gegn verkafólki.

Það síðasta efnislega, sem heyrðist frá henni um málið var að hún vissi ekki hvort nokkurt svigrúm væri til launahækkana verkafólks! Fyrir 4 árum samþykkti SA hins vegar launakröfur verkafólks óbreyttar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: