- Advertisement -

Hitler kanslari

Það myndi vera að bera í bakkafullan lækinn að fara yfir seinni ár Hitlers, enda eru þeir fáir sem ekki þekkja undirstöðuatriði seinni heimstyrjaldarinnar. En færri þekkja hins vegar söguna um hvernig Hitler var kosinn til valda af þýsku þjóðinni fyrir réttum 75 árum.

Barnæskan

Hitler fæddist þann 20. apríl árið 1889 í Braunau-am-Inn í Austurríki, nálægt þýsku landamærunum. Hann var fjórði í röð sex barna tollvarðarins Alois Hitler og þriðju konu hans, Klöru, og það fyrsta sem lifði.

Hann ólst að mestu leyti upp í austurrísku borginni Linz, sem hann tengdist sterkum böndum og óskaði til dæmis síðar eftir að vera grafinn þar. Faðir hans lést þegar Hitler var á fjórtánda ári, en skildi eftir sig næga fjármuni til að kona hans og börn gætu lifað í nokkrum vellystingum. Ævisöguritarar hafa fullyrt að Hitler hafi óttast föður sinn, sem var afar strangur, en að hann hafi aftur á móti verið afar hændur að eftirlátssamri móður sinni, sem lést þegar Hitler var á átjánda ári.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Listamaðurinn Hitler

Hitler gekk heldur illa í skóla og lauk skólagöngu sextán ára gamall með enga pappíra upp á vasann. Hann gat teiknað ágætlega, dreymdi um að verða listmálari og flutti loks til Vínarborgar, þar sem hann sótti tvisvar um í listaháskólanum, en var hafnað í bæði skiptin. Það fékk mikið á hann og lifði hann næstu árin einmanalegu lífi á hverju gistiheimilinu á fætur öðru og sá fyrir sér með því að mála póstkort og auglýsingar. Sú vinna var bæði ótrygg og illa borguð, en þótt hann hefði varla í sig og á lét hann samt alltaf eftir sér að kaupa eingöngu bestu pensla og málningu sem völ var á.

Á þessum árum kviknuðu margar af öfgakenndustu hugmyndum Hitlers um stjórnmál og kynþætti og segja ævisöguritarar hans að þá hafi hann verið farinn að sýna það eðli sem einkenndi hann alla tíð – einveru og dullyndi, sem og hatur á heimsborgarastefnunni og fjölþjóðabragnum sem einkenndu Vínarborg.

Hermaðurinn Hitler

Árið 1913 fluttist Hitler til München í Bæjaralandi, þar sem hann var kallaður til herþjónustu í austurríska hernum en var svo hafnað því hann þótti ekki nógu líkamlega hraustur. En þegar fyrri heimstyrjöldin braust út, árið 1914, gerðist hann sjálfboðaliði í þýska hernum og barðist í fremstu línu allt stríðið. Meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð hélt Hitler áfram að teikna og mála, og gerði það í raun allt sitt líf. Hann særðist í árás árið 1916 og var lagður inn á sjúkrahús eftir gasárás í lok stríðsins, árið 1918. Hitler var sæmdur tveimur heiðursmerkjum fyrir hugrekki sitt í stríðinu sem Þýskaland tapaði.

Ævisöguriturum hans ber saman um að Hitler hafi tekið stríðinu fegins hendi og séð það sem eins konar frelsun frá skapraunum og markleysi daglegs lífs. Aginn og félagsskapurinn innan hersins átti vel við hann og fannst honum hann sjá tilgang lífsins endurspeglast í því sem hann taldi vera fræknar hetjudáðir hermannanna í blóðugum átökum stríðsins.

Eftirstríðsárin

Þegar Hitler útskrifaðist af sjúkrahúsinu settist hann aftur að í München þar sem hann gekk fljótlega í þýska verkamannaflokkinn DAP, sem síðar fékk nafnið National-sozialistische Deutsche Arbeiterpartei (Nazi), Nasistaflokkurinn, ásamt því að halda áfram í hernum. Hann hellti sér út í stjórnmál og starf flokksins og reis fljótt til valda innan hans. Þegar hann var settur yfir áróðursstarfsemi flokksins árið 1920 hætti hann í hernum til að geta betur einbeitt sér að stjórnmálum. Hann kynti undir gremju félaga sinna og lofaði öfgafullri bót og betrun á eftirstríðsvanda Þýsklands, sem margir kenndu bolsévíkum og gyðingum um, og fyrir vikið naut hann mikils stuðnings innan flokksins.

Þjóðverjar hugsa með hryllingi til uppgangs Hitlers og nasistanna, en ástæðurnar fyrir honum voru afar flóknar, líkt og Hans Ottomeyer, forstöðumaður Þýska sögusafnsins í Berlín, sagði AP- réttastofunni nýverið.

Fyrri heimstyrjöldin, gríðarleg verðbólga sem fylgdi í kjölfar friðarsamninganna, kreppan og víðtækt atvinnuleysi í Þýskalandi á þessum árum ollu því að fólk hallaðist sífellt meira að skoðunum öfgaflokkanna, að sögn Ottomeyers. Mikill glundroði ríkti í Þýskalandi á fyrstu eftirstríðsárunum og í raun var ástandið upplagt fyrir slíka stjórnmálaflokka, því meðal fólksins kraumaði gremja yfir því að hafa tapað stríðinu og strangir friðarskilmálarnir urðu til þess að efnahagur landsmanna var afar bágur. Fólk óttaðist hnignun hagkerfisins og þjóðfélagsins í heild sinni, og þegar það fann engar lausnir hjá hefðbundnu stjórnmálaflokkunum, þá leitaði það til Nasistaflokksins.

Formaður Nasistaflokksins

Ástandið var sérlega slæmt í Bæjaralandi, þar sem íbúar höfðu löngum aðhyllst aðskilnaðarstefnu og eldað grátt silfur við lýðveldissinnuð stjórnvöld í Berlín. Sagnfræðingum ber saman um að München hafi verið eins konar suðupottur í Þýskalandi á fyrstu eftirstríðsárunum, og söfnuðust þangað margir fyrrverandi hermenn sem ekki gátu sætt sig við strit daglegs lífs á ný, sem og andstæðingar lýðveldisins. Meðal þeirra mörgu sem gengu í Nasistaflokkinn var Ernst Röhm sem aðstoðaði Hitler mikið við að komast til valda innan flokksins. Röhm var meðal annars ábyrgur fyrir Sturmabteilung, eða SA- her Nasistaflokksins, sem ætlað var að ráðast gegn sósíalistum og kommúnistum og sýna styrk flokksins með ofbeldi.

Hitler var fljótur að sjá að þjóðernissinnaðar hugsjónir flokksins samhæfðust hugmyndum hans vel, en flokknum var illa stýrt. Hann bætti þar um betur, foringjahæfileikar hans fengu að njóta sín og fyrir tilstuðlan hans og nokkurra tryggra liðsmanna hans óx Nasistaflokkurinn úr litlum, óskipulögðum stjórnmálaflokki í stóra, vel skipulagða einingu á eingöngu örfáum árum. Hann notaði „Völkischer Beobachter“ flokksritið óspart til að ná til fólks, auk opinna funda og fjölgaði áheyrendum fljótt úr fremur fáum í mörg þúsund.

Hitler setti sig upp á móti leiðtogum flokksins og naut svo mikillar hylli innan hans að tveimur árum eftir að hann gekk í flokkinn, í júlí 1921, var hann kjörinn formaður hans og stýrði flokknum til æviloka.

Sama ár var SA- herinn orðinn að formlega skipulögðum einkaher flokksins. Stjórn Bæjaralands lét sér hann vel líka, enda kom hann í veg fyrir uppþot og óeirðir og hélt nokkurs konar reglu meðal rósturseggjanna í München.

Fangelsisvist og misheppnað valdarán

Í nóvember 1923 stóðu Hitler og herforinginn Erich Ludendorff fyrir misheppnuðu vopnuðu valdaráni í München, þar sem þeir reyndu að nýta sér ringulreiðina sem enn ríkti í borginni til að neyða leiðtoga Bæjaralands til að lýsa yfir þjóðarbyltingu. Uppþotinu lauk með því að lögrelgan skaut á Hitler og félaga hans, með þeim afleiðingum að sumir létust, en Hitler særðist og var handtekinn.

Mikið fjölmiðlafár spannst í kringum málaferlin sem fylgdu í kjölfarið og nýtti Hitler sér það óspart. Hann var að lokum dæmdur í fimm ára fangelsi, en sat einungis inni í níu mánuði og það við ágætis aðstæður í Landsberg- kastalanum. Ævisöguritarar segja Hitler hafa lært mikið af þessari reynslu, ekki síst það að hann yrði að fara eftir löglegum leiðum til að ná valdi yfir þjóðinni allri.

Hitler sat síður en svo aðgerðarlaus í fangelsinu, heldur notaði hann tímann til að skrifa fyrsta hluta bókarinnar sem lýsir hugmyndafræði og pólitísku lífi hans, „Mein Kampf“, sem seldist í milljónum eintaka.

Þegar hann var látinn laus úr fangavistinni beið hann ekki boðanna heldur hófst handa við að byggja Nasistaflokkinn upp enn frekar. Ástandið í Þýskalandi fór þá batnandi og Hitler var bannað að halda fjöldafundina bæði í Bæjaralandi og víðar í Þýskalandi, en þrátt fyrir það tókst honum að ná til sífellt fleira fólks og flokkurinn óx jafnt og þétt, ekki síst eftir að eigandi fjölmiðlafyrirtækis gekk til liðs við hann og Hitler gat notað dagblöð til að birta ræður sínar. Á sama tíma naut hann stuðnings sífellt fleiri auðmanna og verksmiðjueigenda, sem studdu flokkinn fjárhagslega í von um að hann kæmi í veg fyrir að vinstrisinnaðir flokkar næðu völdum. Þessi aukni fjárstuðningur auðveldaði Hitler enn frekar að ná til fleiri Þjóðverja, allt frá fátækum atvinnuleysingjum og upp í efri stéttina. Enda varð raunin sú að stuðningsmenn Nasistaflokksins komu úr öllum stéttum og úr öllum trúarhópum – hlutur sem fáir aðrir þýskir stjórnmálaflokkar gátu státað sig af.

Einkalíf Hitlers

Með batnandi afkomu flokksins jókst innkoma Hitlers. Hann hafði þó lítinn áhuga á fötum eða mat, og hætti á þessum árum að drekka bjór og allt annað áfengi, þótt hann héldi áfram uppteknum hætti sínum frá unglingsárunum, að vakna seint og vinna fram á nótt.

Hálfsystir Hitlers, Angela Raubal, flutti til hans með tvær dætur sínar og varð Hitler fljótt afar hændur að annarri þeirra, Geli. Stúlkan framdi sjálfsmorð í september 1931 og segja sumir að afbrýðisemi móðurbróður hennar hafi leitt hana til þess. En hver svo sem sannleikurinn er, þá er ljóst að Hitler tók lát Geli afar nærri sér.

Nokkru síðar tók hann sér hjákonu, Evu Braun, sem starfaði í verslun í München. Hann neitaði lengi vel að kvænast henni og hún sást sjaldan með honum opinberlega. Sagnfræðingar segja hana hafa verið einfalda konu og að Hitler hafi verðlaunað tryggð hennar með því að kvænast henni rúmum sólarhring áður en þau frömdu bæði sjálfsmorð undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar.

Hitler kanslari

Þjóðfélagslegt ástand í Þýskalandi batnaði lítið, kreppan kom og mikil ringulreið ríkti í stjórnmálum Þýskalands. Sífellt fleiri aðhylltust kenningar nasistanna og flokkurinn óx hratt. Árið 1928 hlaut hann 2,6 prósent atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu en tveimur árum síðar 18 prósent. Árið 1932 bauð Hitler sig fram til forseta á móti Paul von Hindenburg, og hlaut 36,8 prósent atkvæða í seinni umferð kosninganna, sem lauk með því að von Hindenburg var kjörinn forseti.

Í kosningum sem haldnar voru í lok árs 1932 varð Nasistaflokkurinn stærsti stjórnmálaflokkurinn á þýska þinginu. Von Hindenburg útnefndi Hitler kanslara Þýskalands í janúar 1933, tíu árum eftir að hann hafði setið í fangelsi fyrir misheppnaða valdaránstilraun og var Hitler þar með í forsvari fyrir samsteypustjórn nasista og annarra flokka.

Um það bil mánuði eftir að Hitler var skipaður kanslari tókst honum að styrkja stöðu sína til muna þegar kveikt var í Reichstag þinghúsinu, með því að herða lög og láta svo harkalega til skarar skríða gegn stjórnarandstöðuflokkum að þeir voru allir lagðir niður á nokkrra mánaða tímabili. Hollenski kommúnistinn Marinus van der Lubbe var fundinn sekur um íkveikjuna og líflátinn í janúar 1934. Hins vegar er máli van der Lubbes síður en svo lokið í huga Þjóðverja, því fyrr á þessu ári komust þýskir dómstólar að þeirri niðurstöðu að hann hefði í raun verið saklaus af ákærunni og eingöngu verið blóraböggull nasistanna í valdatöku þeirra.

Der Führer

Nasistaflokkurinn sýndi meðlimum sínum engu minni hörku, því þegar ljóst varð að félagi Hitlers og foringi SA- hersins, Ernst Röhm, hafði aðrar hugmyndir en Hitler um uppgang flokksins, fóru Hermann Göring og Heinrich Himmler fram á að hann yrði fjarlægður. Hitler reyndi að hlífa félaga sínum, en að lokum voru Röhm og nokkrir aðrir SA- herforingjar teknir af lífi án dóms og laga í júní 1934. Upp frá því voru hermenn hersins eiðbundnir Hitler persónulega, sem enn tryggði stöðu hans.

Þegar Hindenburg lést í ágúst 1934, tók Hitler sér titil ríkiskanslara og leiðtoga, Der Führer, og var þá orðinn einræðisherra. Efnahagslegt ástand landsins batnaði til muna og þökkuðu Þjóðverjar Hitler það þrátt fyrir að hagur alls hins vestræna heims færi nú batnandi eftir að kreppunni létti. Á sama tíma vann Hitler ötullega að því að knésetja gyðinga, meðal annars með því að setja lög sem bönnuðu þeim ýmislegt sem þykja í dag sjálfsögð mannréttindi. Hann hóf einnig að stækka og styrkja þýska herinn, sem og undirbúning yfirtöku á nærliggjandi löndum, sem að lokum leiddi til seinni heimsstyrjaldarinnar. Jafnframt kom hann á stjórnmálasambandi við rkisstjórnir Ítalíu og Japans.

Endalokin

Við tók svo ferill sem hvert mannsbarn þekkir, þegar Hitler leiddi þjóð sína í stríð við flestar nágrannaþjóðir. Seinni heimstyrjöldin hófst árið 1939 þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland, og lauk svo sex árum síðar með ósigri Þjóðverja. Hinn 30. apríl árið 1945 framdi Hitler sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi í Berlín, skömmu eftir að kona hans, Eva Braun, hafði gert slíkt hið sama. Hann var þá 56 ára gamall og hafði hafist við í byrginu frá upphafi þess árs. Að ósk hans voru lík þeirra brennd.

Að lifa með minningum

Þjóðverjar hafa reist fjölmörg söfn og minnismerki um þær minnst sex milljónir manna sem féllu í helför nasistanna og þýskir saksóknarar leita enn fjölmargra nasista, sem talið er að séu í felum víða um heim, svo hægt sé að sækja þá til saka.

„Það skiptir mestu máli að gleyma aldrei, týna aldrei minningunni um helförina – ekki til að hegna ófæddum kynslóðum Þjóðverja, heldur svo minningin virki sem aðvörun fyrir okkur öll,“ sagði Burt Schuman, bandarískur rabbíni í forsvari fyrir pólskt gyðingasamfélag, í samtali við AP- fréttastofuna. „Ég get ekki ímyndað mér þjóðfélag sem Hitler hefði líkað verr en Þýskaland Angelu Merkel eða flestra fovera hennar.“

Sigrún María Kristinsdóttir blaðamaður skrifaði grein, sem birtist í Mannlífi árið 2008, þegar 75 ár voru síðan Adolf Hitler, fyrrum kanslari Þýskalands, var kjörinn til valda. Þó að ekki sé blöðum um það að fletta að þýska þjóðin vildi allra helst geta gleymt þeim atburði, sem leiddi til dauða milljóna manna, er hann óneitanlega samtvinnaður sögu hennar um aldur og ævi.

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: