Fyrstu sex mánuði ársins barst Leigjendaaðstoðinni 991 erindi. Er það um 35% aukning miðað við fyrra ár, en fyrstu sex mánuði ársins 2013 voru erindin 736. Ef álag á þjónustunni verður sambærilegt á seinni hluta ársins má gera ráð fyrir að erindin verði alls um 2.000, en allt árið 2013 voru erindin 1.467.
Vitaskuld eru langflest erindin frá einstaklingum á leigumarkaði, eða 957, en einnig er eitthvað um að fjölmiðlar, fyrirtæki og opinberir aðilar hafi samband. Athygli vekur að það eru í miklum meirihluta, eða 589 tilvikum, konur sem hafa samband, og er það í raun sama hlutfallslega skiptingin og á síðasta ári.
Langflestir hafa samband símleiðis en einnig er töluvert um að fólk sendi tölvupóst eða komi einfaldlega á skrifstofuna.
Leigjendaaðstoðin veitir leigjendum íbúðarhúsnæðis upplýsingar um rétt sinn, ráð og leiðbeiningar án endurgjalds. Leigjendaaðstoðin er til húsa hjá Neytendasamtökunum, á Hverfisgötu 105, og símatími er frá 12:30 til 15:00 á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum.
Sjá betur hér á leigjandi.is.