- Advertisement -

Íslensk stjórnmál grafa undan sjálfstæðinu

Ríkisstjórnin blessaði það og studdi. Alþingi kvittaði upp á það. Forsetinn skrifaði undir það. Það er ekki aðeins upplausn í dómskerfinu okkar í kjölfar dómsins, þingræðið okkar stendur laskað eftir, afhjúpað og niðurlægt.

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, skrifar:

Sú niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu að ranglega hafi verið staðið að skipun dómara í Landsrétt hefur á síðasta sólarhring ítrekað verið kölluð aðför að sjálfræði Íslands. Á sinn brenglaða hátt er það rétt. Við skulum hafa það í huga að fúskið við skipan dómaranna hlaut ítrekað heilbrigðisvottorð í stjórnkerfi landsins. Ríkisstjórnin blessaði það og studdi. Alþingi kvittaði upp á það. Forsetinn skrifaði undir það. Það er ekki aðeins upplausn í dómskerfinu okkar í kjölfar dómsins, þingræðið okkar stendur laskað eftir, afhjúpað og niðurlægt.

Auðvitað er það ekki Mannréttindadómstóllinn sem gert hefur aðför að sjálfræði þjóðarinnar, það erum við sjálf. Það hvernig stjórnmál eru stunduð á Íslandi grefur undan sjálfræðinu. Öll sú dómgreind og allar þær samviskur sem eiga að mynda tregðu gegn ósiðum og spillingu sofa á verðinum þegar þörf er á.

Þögn stjórnarliða frá því dómurinn féll er áminning um þetta. Enginn lét svo mikið sem kræla á afstöðu sinni fyrr en ljóst varð hver hún ætti að vera. Hinar háværu skoðanir stjórnarandstöðunnar eru síðan jafn fyrirsjáanlegar og þögn stjórnarliða

Þögn stjórnarliða frá því dómurinn féll er áminning um þetta. Enginn lét svo mikið sem kræla á afstöðu sinni fyrr en ljóst varð hver hún ætti að vera. Hinar háværu skoðanir stjórnarandstöðunnar eru síðan jafn fyrirsjáanlegar og þögn stjórnarliða. Jafnvel fólk sem ber fulla ábyrgð á meðferð málsins þykist nú snarlega hneykslað, af því að það er núna í stjórnarandstöðu. Segist jafnvel hafa stutt málið með góðri samvisku á sínum tíma. Það er auðvitað þvæla. Skipun Landsdóms var einhver grímulausasta subbustjórnsýsla sem við höfum orðið vitni að í seinni tíð — og fjöldi fólks benti á það. Við vissum þetta öll.

Sem þjóð erum við einfaldlega oft léleg í stjórnmálum. Við höfum marga lélega stjórnmálamenn og jafnvel lélegri kjósendur. Það er sorglegt en satt. Og þess vegna stjórnum við landinu líka frekar illa.

Við höldum stundum að grundvallarmunurinn á kröfum til stjórnmálamanna hér á landi og erlendis felist í því hvernig þeir bregðast við þegar þeim verður á. Hve oft höfum við ekki sagt: Ef þetta hefði gerst í xlandi væri y löngu búin/n að segja af sér?

Grundvallarmunurinn liggur barasta ekkert í því.

Það er aukaatriði að hér hangi stjórnmálamenn eins og hundar á roði í embættum þegar þeir hafa gert einhvern fjandann af sér — hinn eiginlegi munur á íslenskum stjórnmálum og þeim sem við ættum að bera okkur saman við felst í því hvað menn gera meðan þeir vinna vinnuna sína eins og þeir eru vanir og verða ekki uppvísir að neinum stórhneykslum.

Það er áhyggjuefnið.

Þess vegna breytir afsögn dómsmálaráðherra nú engu ein og sér, ekki frekar en afsögn síðasta dómsmálaráðherra fyrir stuttu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: