- Advertisement -

ÞAÐ ER EKKI TIL VERRI GLÆPUR EN FÁTÆKT

Það voru stundum pönnukökur í matinn, ég man þegar ég hafði popkorn í matinn.

Ræða Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur á Lækjartorgi 8. mars:

Það er ekki til verri glæpur á Íslandi en fátækt.

Ég gat sagt frá því að ég væri alkóhólisti, með geðhvörf, ástarfíkn, hefði verið í ofbeldissambandi, einstæð móðir, allt nema það að ég væri fátæk, það var einsog tungan frysi föst í munni mínum þegar ég átti að segja frá því að ég væri öryrki og ég faldi strætómiðana fyrir sonum mínum sem á stóð: Fyrir öryrkja. Það er reyndar athyglisvert að í íslenskri tungu er til hugtakið „andleg fátækt“ sem núllar út þetta hugtak fátækt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Mér hefur aldrei, ekki eitt augnablik, fundist ég vera fátæk, ég hef verið efnalítil, blönk eða peningalítil, en aldrei fátæk.

Reyndar brá mér svolítið þegar ein vinkona mín benti mér á að ég lifði undir fátæktarmörkum.

Þetta er ákveðinn raunveruleiki. Að eiga ekki fyrir mat eða nauðsynjum.

Ég man hvað ég var hissa þegar það stóð í útreikningum vísitölu að það að fara í bíó og leikhús væri hluti af heimilisreikningnum. Ég fór aldrei í bíó.

Það voru stundum pönnukökur í matinn, ég man þegar ég hafði popkorn í matinn.

Eins á bernskuheimili mínu, skyr í kvöldmatinn dag eftir dag.

En það þykir svo mikill glæpur á Íslandi að vera fátækur að það er ekki talað um það, það hefur legið í algjöru þagnargildi.

Afhverju??? Af því þá kæmist upp um hina raunverulegu glæpamenn, ríkt fólk sem lifir á hinum fátæku og er svo vitlaust að það veit ekki einu sinni af því. Það verður alveg gapandi ef fólk ætlar í verkföll og staðhæfir að efnahagslífið muni hrynja, hvaða efnahags-líf, það er efnahags-dauðinn sem knýr þetta samfélag áfram. Hver er mismunur á 4 milljónum á mánuði og 240 þúsund??? Ríka og vonda fólkið yfirtekur ekki bara efnahaginn, peningana og tíma okkar, það yfirtekur líka rökin….

Maður gengur undir manns hönd, seðlabankastjóri, fjármálaráðherra, forsætisráðherra, samtök atvinnulífsins, dapurlegur kór sem á endanum á eftir að segja einsog Ríkharður þriðji: Mín geðveiki fyrir hest.

Því það er geðveiki að horfast ekki í augu við raunveruleikann.

Og það er verulega hræðilegt, HRÆÐILEGT, að landinu skuli vera stjórnað af fólki sem veit ekki af raunveruleikanum í eigin landi.

Skelfilegt að til sé fólk sem heldur að 240 þúsund sé ásættanleg laun.

Það eru ekki laun, það er ölmusa, þetta er þrælahald.

Og enn hræðilegra að það er ekkert, ekkert, nákvæmlega ekkert sem hægt er að segja við þetta stjórnvöld og stórfyrirtæki svo það opni augun.

En við erum með opin augun.

Og afhverju?

Af því við skúrum gólfin, skiptum um á rúmunum, hristum koddana, sinnum sjúkum, hughreystum börnin.

Það er fyrst og fremst börn sem líða fyrir þessa láglaunastefnu.

Fyrirlitning á börnum. Gefið mér annað orð ef þetta er ekki fyrirlitning.

(Hættið að kalla hrunið hrun, þetta er rán, tökum tungumálið í okkar hendur.)

Hvíti kynstofninn, karólínska. Afleiðingar nýlendustefnan, nýlendustefnan hafði breytt um svið, skaraðist við „nútímasamfélagið“ hvílílkt orð, nútímasamfélagið.

Fólk sem skúrar gólfið, það getur líka stappað í gólfið, það getur líka dansað á gólfinu.

Afhverju er láglaunastefnan kölluð ofbeldi núna!!??

Á bara kalla allt ofbeldi, er nú allt orðið ofbeldi, má maður ekkert lengur!!

Það er ofbeldi þegar ríkt fólk sem hefur allt í hendi sér, peningaöfl, fjölmiðla, menningarstefnu, kvótakerfið, skattaparadísir, vopnaflutninga, flóttamannastefnu, hvað stjórnar verði á vændi og eiturlyfjum, jafnvel verð á eiturlyfjum, … og hver á 17. júní: Víkingasveitin!! Og hver á vitleysuna, þessa miklu auðlind!!? Stjórnvöld og ríkt fólk, (sem kallar sig auðmenn!!) Hver á vitleysuna, það er þegar forsætisráðherra og fjármálaráðherra koma í fjölmiðla og segja: Skamm, skamm bankastjóri, þú ert með of há laun. Alveg einsog þau hafi bara alls ekki vitað hvað bankastjórar hafi í laun. Þykjast hafa verið að lesa þetta í blöðunum!! En það er þetta fólk hefur gegnum aldirnar komið því á fátækt sé glæpur. Það millifærir bara orðið af eigin reikningi yfir á okkar.

Þetta er sama syndrómið og þegar ofbeldismenn, kynferðisglæpamenn, segja það sé fórnarlömbunum að kenna að þeir hafi framið verknaðinn.

Þú varst í of stuttu pilsi.

Efnahagslífið hrynur ef þú heimtar hærri laun. Við erum ekki að heimta, heldur krefjast, leiðrétta.

Þegar ég vann á Kleppi, 20 ára gömul, þá fengum við starfsfólkið betri morgunmat en sjúklingarnir. Við fengum fínasta jógúrt á meðan þau fengu gamaldags súrmjólk. Ég hugsaði hvernig á einhverjum að batna ef þessu er svona misskipt. Svo er okkur sagt að geðsjúkdómar séu dularfullir og ólæknanlegir þegar þarf kannski bara að gefa okkur jafnt að borða. Vinkona mín var send lítil á barnaheimili þarsem starfsfólkið borðaði kótelettur og fisk, meðan börnin fengu einhverjar kássur. Einu sinni sendi ég syni mína í sveit, húsráðendur á bænum fengu fínni mat en þeir.

Jöfnuður gerir okkkur veik, kvíðin, þunglynd, reiðin sest að í æðunum, vanmátturinn í hjartanu. Sama hvað er mótmælt það er aldrei neitt svar, nema þetta er þér að kenna, síðast ætlaði einhver kaupmaður að hækka matvöruverð um 15 prósent, á mannamáli heitir þetta ÓGNARSTJÓRN.

Einu sinni hélt ég að pólitík væri grunnur alls, afhverju, af því hún er alltaf á forsíðunni?

En það er jöfnuður, jöfnuður, jöfnuður sem er grunnur alls.

Pólitík er bara til að tryggja jöfnuð.

Jöfnuður er okkur í blóð borinn!!!

Þegar synir mínir voru litlir reyndi ég að passa uppá að þeir fengju jafngóða íþróttaskó og ríku strákarnir.

Annað gæti haft mjög skaðlegar afleiðingar.

Þegar við systkinin vorum lítil pössuðum við uppá það að mamma skipti alltaf jafnt á milli. Mamma sem vaknaði klukkan sex á morgnana til að bera út blöð. Mamma skipi alltaf jafnt á milli en við pössuðum uppá það því við vissum að annað gæti valdið úlfúð í systkinahópnum, meðal okkar bræðra og systra.

OG MUNUM ÞAÐ SYSTUR.

Jöfnuður er okkur í blóð borinn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: