- Advertisement -

Afnema á skerðingarnar strax

Það er tímabært að ríkið skili þessum peningum.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Miklar umræður hafa átt sér stað undanfarið um skerðingarnar vegna lífeyrissjóðanna. Ríkið skerðir grimmdarlega lífeyri eldri borgara hjá almannatryggingum hjá þeim, sem sparað hafa í lífeyrissjóð.

Ég hef um langt árabil barist gegn þessu ranglæti. Þegar ég vann að þessu máli hjá Félagi eldri borgara í Rvk í kjaranefnd félagsins lagði ég gjarnan áherslu á að þessar illu skerðingar yrðu afnumdar í áföngum. Þannig var baráttan hjá FEB í Rvk í mörg, mörg ár. En stjórnvöld önsuðu því aldrei neitt þó reynt væri að liðka málin til fyrir stjórnvöldum.

Í dag tel ég að afnema eigi skerðingarnar í einum áfanga. Rök mín eru þessi: Ríkið hefur tekið til láns af eldri borgurum stórar fúlgur fjár árum saman, þ.e. fjármuni, sem eru ígildi mjög mikils hluta lífeyrissparnaðar eldri borgara alla starfsævi þeirra. Það er tímabært að ríkið skili þessum peningum.

Því var lýst yfir þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir, að þeir ættu að vera hrein viðbót við almannatryggingar. ASÍ lýsti því yfir 1969. Það að þing og ríki skyldu fara að skerða lífeyri TR vegna lífeyrissparnaðar eldri borgara eru hrein svik.

Ég bind vonir við, að málsókn gegn ríkinu geti knúið ríkið til þess að skila umræddum fjármunum til eldri borgara og koma í veg fyrir að þessi „eignaupptaka“ haldi áfram.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: