- Advertisement -

Verkafólk með sultarlaun – ofurlaun flæða um allt

Lítið mark er takandi á yfirlýsingum KJ og BB.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Vakin var athygli á því um helgina, að laun millistjórnenda (næstráðenda) í Íslandsbanka og Landsbanka væru mjög há. Þau eru mun hærri en laun forsætisráðherra og nokkuð hærri en laun forstjóra ríkisfyrirtækja.

Laun forstjóra þeirra ríkisfyrirtækja, sem næst eru ráðuneytunum eru 1,2-1,6 millj. á mánuði (voru að vísu hækkuð afturvirkt um 18 mánuði 2016!) en ríkisstofnanir, sem fjær eru svo sem Landsvirkjun, Isavia, Rarik o.fl. greiða forstjórum sínum miklu hærri laun eða margar milljónir á mánuði. (Forstjóri Landsvirkjunar er með 3,8 millj. á mánuði með hlunnindum).

Sukkið og spillingin er yfirgengileg. BB og KJ láta eins og þau séu óánægð með þetta en þau hafa ekki sýnt það í verki fram að þessu. BB á meiri þátt en nokkur annar í ofurlaununum.

Það var kjararáð, sem lagði grundvöll að ofurlaununum öllum. Ráðið starfaði á ábyrgð BB og formaður þess var handvalinn af miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Ráðið hækkaði laun þingmanna um 70% á 3 árum og ráðherra um 64% á sama tíma.

Eftir það voru þessi laun ráðherra komin í 1,8-2 millj.kr á mánuði og laun þingmanna í 1,1 millj. kr. á mánuði og við þessi laun bætast mikil hlunnindi og aukasporslur. Merki um spillingu.

Óánægja með ofurlaunastefnu kjararáðs var mikil í þjóðfélaginu og var málið rætt á alþingi. Margir þingmenn vildu, að undið yrði ofan af ofurhækkununum, þar á meðal KJ. En allir þingmenn, sem sögðust viljja breyta ákvörðunum kjararáðs láku niður, allir nema einn, Jón Þ. Ólafsson, Pírati.

Í framhaldi af því er lítið mark takandi á yfirlýsingum KJ og BB í dag um, að það þurfi að endurskoða laun bankastjóra og slíkt. Það á að byrja á þingi og stjórn. Lækka þau kjör um leið og hungurlús verkafólks verður leiðrétt. Þegar það verður gert er unnt að taka mark á ráðamönnum þjóðarinnar í þessum málum; fyrr ekki.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: